Enn teygist úr ferðalaginu

Hluti af íslenska hópnum í London í gær.
Hluti af íslenska hópnum í London í gær. Ljósmynd/ÍSÍ

Íslenska íþróttafólkið sem ætlar að verja heiður Íslands í sundi og körfubolta á Smáþjóðaleikunum í San Marínó er enn á faraldsfæti og mun ekki ná á keppnisstaðinn fyrir miðnætti í kvöld að staðartíma. 

Hópurinn sem í eru um fimmtíu manns fór með rútu frá London til Brussel. Þar var hægt að fá flug fyrir hópinn til Mílanó og ætti vélin að vera að hefja sig á loft þegar þessi frétt er skrifuð um kl. 19 að íslenskum tíma. 

Þegar til Mílanó verður komið er enn eftir rútuferð í tæplega fjóra tíma á keppnisstaðinn í San Marínó. Keppni í sundi og körfubolta hefst á morgun ásamt fleiri greinum en leikarnir eru formlega settir í kvöld. 

Eins og fram hefur komið á mbl.is í dag byrjuðu hrakningar íslenska íþróttafólksins í London í gær þegar ljóst varð að tengiflug til Ítalíu með British Airways féll niður vegna bilunar í tölvukerfi flugfélagsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert