Skiluðu sér um miðja nótt

Eygló Ósk Gústafsdóttir kemur tæplega mjög fersk til leiks í …
Eygló Ósk Gústafsdóttir kemur tæplega mjög fersk til leiks í sína sterkustu grein seinni partinn í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska íþróttafólkið er nú allt komið til San Marínó. Keppni á Smáþjóðaleikunum hófst í morgun en mörg þeirra sem lentu í maraþonferðalagi vegna vandræða hjá British Airways þurfa að keppa strax í dag. 

Íþróttafólkið kom á áfangastað um miðja nótt og fékk því sennilega litla hvíld þessa fyrstu nótt. Margt af sundfólkinu keppir í dag og má þar nefna að Íþróttamaður ársins 2015, Eygló Ósk Gústafsdóttir, keppir í sinni sterkustu grein 200 metra baksundi. 

Karlaliðið í körfuknattleik á leik á móti (góð)kunningjum sínum frá Kýpur en oft hefur verið grunnt á því góða í leikjum þessara liða. Margir muna eftir því þegar flauta þurfti leik liðanna af í Mónakó vegna slagsmála fyrir um áratug síðan. 

Kvennaliðið í körfunni fékk hins vegar frestun á sínum leik. Hægt var að færa leik liðsins gegn Lúxemborg til föstudags og voru Lúxarar einnig hlynntir þeirri frestun. 

Körfuboltadómararnir Sigmundur Már Herbertsson og Leifur Garðarsson voru með hópnum sem kom í nótt en þeir hafa skyldum að gegna á leikunum. Umsjónarmaður dómaramála í körfuboltanum gaf þeim félögum frí frá dómgæslunni í dag vegna ferðalagsins umtalaða. 

Landsliðsmaðurinn Pétur Rúnar Birgisson. og dómarinn Leifur Garðarsson komu báðir …
Landsliðsmaðurinn Pétur Rúnar Birgisson. og dómarinn Leifur Garðarsson komu báðir á keppnisstað í nótt. Leifur fær frí í dag en Pétur spilar gegn Kýpur. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert