Sunddrottningin harmar nýjar reglur

Járnfrúin Katinka Hosszú fyrir miðju, ásamt Eygló Ósk Gústafsdóttur og …
Járnfrúin Katinka Hosszú fyrir miðju, ásamt Eygló Ósk Gústafsdóttur og Dariu Ustinova, á EM í 25 metra laug í desember 2015. AFP

Ungverska sunddrottningin Katinka Hosszú er afar óánægð með breytingar alþjóða sundsambandsins á heimsbikarmótaröðinni og kallar eftir samstöðu sundfólks til að berjast gegn breytingunum.

Hosszú er 28 ára gömul og var meðal annars ein keppinauta Eyglóar Óskar Gústafsdóttur á Ólympíuleikunum í Ríó í fyrra, þar sem Hosszú varð ólympíumeistari í þremur greinum. Það er einmitt fjölhæfni Hosszú sem virðist hafa haft sitt að segja um nýjar mótareglur FINA, samkvæmt frétt Reuters.

Breytingin gengur út á það að nú megi hver keppandi að hámarki keppa í fjórum einstaklingsgreinum á hverju heimsbikarmóti. Hosszú hefur rakað inn verðlaunafé á mótum síðustu ára en hún vann sér inn 386.000 Bandaríkjadali í fyrra, 325.000 dali árið 2015 og 389.000 árið 2014. Á sama tíma hefur hún unnið heims- og ólympíumeistaratitla.

„Það eru miklir möguleikar fólgnir í heimsbikarmótunum en þessar nýju reglubreytingar eru afar slæmar og bera vott um hræsni. Þessar reglur ógna framtíð íþróttarinnar okkar,“ sagði Hosszú í pistli á Facebook.

„Mun NBA takmarka þátttöku LeBron James þegar hann tekur þátt í úrslitunum í áttunda sinn á næsta ári? Mun ATP reyna að segja Nadal og Federer að þeirra tíma sé lokið?“ spurði Hosszú enn fremur, til að setja málið í samhengi.

FINA neitaði að tjá sig um ummæli Hosszú þegar Reuters leitaði eftir því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert