Ísland í 11. sæti í Ísrael

Ásdís Hjálmsdóttir keppti í spjótkasti í gær en í kúluvarpi …
Ásdís Hjálmsdóttir keppti í spjótkasti í gær en í kúluvarpi í dag. mbl.is/Andri Yrkill

Íslenska landsliðið í frjálsíþróttum endaði í 11. sæti í 2. deild Evrópumóts landsliða sem fram fór í Tel Aviv í Ísrael um helgina og féll niður í 3. deild.

Ísland hlaut 181,5 stig og endaði í 11. sæti af tólf þjóðum en mótið var bæði fjölmennara og sterkara en nokkurn tímann fyrr. Í fyrra lenti Ísland í 6. sæti af 8. Ungverjaland vann mótið með 372,5 stig, Slóvakar urðu í öðru með 306,5 stig og Litháar í þriðja með 298,5 stig.

Af fjölmörgum íslenskum keppendum í dag náði Kolbeinn Höður Gunnarsson besta árangrinum er hann varð fimmti í 200 metra hlaupi karla er hann hljóp á tímanum 21,23 sekúndum. Hann á best 20,96 sekúndur.

Ásdís Hjálmsdóttir varð sjötta í kúluvarpinu með kasti upp á 14,65 metra en hún keppti einnig í spjótkasti, sem er hennar aðalgrein í gær. Hún á best 16,08.

Guðni Valur Guðnason varð sjöundi í kringlukasti með kasti upp á 57,92 metra í dag.

Í gær setti svo íslenska karlasveitin í 4x100 metra hlaupi nýtt Íslandsmet með því að hlaupa á tímanum 40,40 sekúndum. Íslandsmetið var bæting frá metinu sem sett var í San Marínó fyrr í mánuðinum um 5/100 úr sekúndu. Íslensku karlasveitina skipuðu Björgvin Brynjarsson, Ívar Kristinn Jasonarson, Kolbeinn Höður Gunnarsson og Ari Bragi Kárason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert