Bolt áhyggjulaus þrátt fyrir „hæg“ hlaup

Usain Bolt gefur eiginhandaráritanir í Tékklandi í kvöld.
Usain Bolt gefur eiginhandaráritanir í Tékklandi í kvöld. AFP

Usain Bolt náði ekki að hlaupa 100 metra hlaupið undir 10 sekúndum á tékkneska mótinu Gullni gaddaskórinn í Ostrava í kvöld. Hann fagnaði engu að síður sigri.

Þetta var annað mótið í röð þar sem Bolt hleypur á meira en 10 sekúndum en hann ætlar sér sigur á heimsmeistaramótinu í London í ágúst á þessu keppnistímabili sem hann hefur sagt vera sitt síðasta. Bolt hljóp á 10,06 sekúndum og tókst að vera á undan Kúbverjanum Yunier Perez. Þetta er í fyrsta sinn á ferlinum sem Bolt hleypur tvö 100 metra hlaup í röð á meira en tíu sekúndum:

„Ég er ekki ánægður en ég er að komast í hlaupaformið mitt og þarf að æfa meira,“ sagði Bolt, sem er þrítugur. „Ég verð í góðu lagi. Ég þarf að láta lækni kíkja á mig og þjálfarinn setur svo upp æfingar fyrir mig. Engar áhyggjur,“ sagði Bolt.

Van Niekerk bætti við afrekaskrána

Ólympíumeistarinn í 400 metra hlaupi, Wayde van Niekerk frá Suður-Afríku, vann 300 metra hlaup á 31,23 sekúndum. Það er besti árangur sögunnar í greininni sem reyndar er sjaldgæft að keppt sé í. Fyrra metið átti Michael Johnson frá árinu 2000. Van Niekerk er þar með fyrsti maðurinn í sögunni sem nær að hlaupa 100 metra á innan við 10 sekúndum, 200 metra á innan við 20 sekúndum, 300 metra á innan við 31 sekúndu og 400 metra á innan við 44 sekúndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert