Birna og Guðbjörg kepptu í úrslitum

Tiana Ósk Whitworth, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Helga Margrét Haraldsdóttir.
Tiana Ósk Whitworth, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Helga Margrét Haraldsdóttir. Ljósmynd/Stefán Þór Stefánsson

Öðrum keppnisdegi er lokið á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar sem fram fer í Györ en í dag átti Ísland tvo keppendur í úrslitum í frjálsum íþróttum.

Birna Kristín Kristjánsdóttir keppti í úrslitum langstökksins. Þar stökk hún 5,37 metra sem tryggði henni 11 sætið. Í úrslitum 100 metra hlaupsins hljóp Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir á tímanum 11,78 sekúndur sem skilaði henni í 5. sæti.

Keppni Íslendinga hófst í sundlauginni þar kepptu Patrik Viggó Vilbergsson og Viktor Forafonov í undanriðlum 400 metra skriðsunds. Patrik Viggó synti á 4:18,10 mínútum og Viktor á 4:13,06 mínútum, enduðu þeir í 25. og 29. sæti og komust því ekki áfram í milliriðla.

Í einliðaleik drengja í tennis keppti Brynjar Sanne Engilbertsson við breskan dreng. Leikurinn endaði með tapi í tveimur settum. Sofia Sóley Jónasdóttir keppti jafnframt í einliðaleik, þar lék hún við stúlku frá Tyrklandi og tapaði í tveimur settum 6:2 og 6:3. Í tvíliðaleik léku Georgína og Sofía Sóley við stúlkur frá Sviss og töpuðu í tveimur settum 6:2 og 6:1.

Í júdó keppti Alexander Heiðarsson í -55 kg flokki við dreng frá Slóveníu. Eftir hörku viðureign tapaðist glíman og var Alexander þar með úr leik.

Í liðakeppni í fimleikum enduðu strákarnir í 17. sæti. Hæstu einkunn íslensku keppendanna fékk Martin Bjarni  67.350, Leó var með 43.450 og Breki 18.700.

Á morgun miðvikudag mun Guðbjörg Jóna hefja keppni í undanriðlum 200 metra hlaups og Helga Margrét stekkur þrístökk. Komið er að keppni stúlkna í liðakeppni í áhaldafimleikum auk þess sem handknattleikslið drengja spilar sinn síðasta leik í riðlakeppninni við Spánverja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert