400 grömm í titilinn

Fanney Hauksdóttir með verðlaun sín á EM í Finnlandi.
Fanney Hauksdóttir með verðlaun sín á EM í Finnlandi. Ljósmynd/Kraft.is

Kraftlyftingakonan Fanney Hauksdóttir náði frábærum árangri á Evrópumótinu í klassískri bekkpressu sem fram fór í Ylitornio í Finnlandi á laugardaginn. Fanney bætti Íslandsmet sitt í -63 kg flokki um 2,5 kíló þegar hún lyfti 112,5 kílóum. Sú lyfta skilaði Fanneyju silfurverðlaunum, en hún lyfti jafn miklu og Ungverjinn Zsanett Palagyi. Palagyi vann hins vegar Evrópumeistaratitilinn þar sem líkamsþyngd hennar er minni en Fanneyjar.

„Ég er mjög ánægð með árangurinn þó svo að maður vilji alltaf vinna gullverðlaun. Sérstaklega þegar maður er svona grátlega nærri þeim. Ég tapa á því að vera 400 grömmum léttari en sú sem varð Evrópumeistari og það er vissulega mjög svekkjandi,“ sagði Fanney í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Þrátt fyrir vonbrigðin er ég mjög ánægð með að ná að bæta minn persónulega árangur og bæta Íslandsmetið. Það er mjög erfitt að bæta sig mikið þegar þyngdirnar eru orðnar jafn miklar og ég er að lyfta. Að bæta sig um 2,5 kíló er virkilega vel af sér vikið að mínu mati,“ sagði Fanney enn fremur.

„Nú er bara markmiðið að bæta sig enn frekar. Ég var frekar langt frá því að koma 115 kílóunum sem ég reyndi við upp og ég held að ég muni bæta mig hægt og bítandi í framhaldinu. Það er Íslandsmót í september og ég er mjög spennt að taka þátt í því. Síðan í kjölfarið er Evrópumeistaramót í búnaðarbekkpressu. Vonandi tekst mér jafn vel upp þar og í þeirri klassísku,“ sagði Fanney um framhaldið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert