„Ég var að kveðja allt saman“

Usain Bolt kveður áhorfendur á sínu síðasta stórmóti.
Usain Bolt kveður áhorfendur á sínu síðasta stórmóti. AFP

Goðsögnin Usain Bolt hefur tjáð sig um brotthvarf sitt af stóra sviðinu í frjálsum íþróttum, en Bolt keppti á sínu síðasta stórmóti á HM í London sem nú er lokið. Ferli Bolts, sem er áttfaldur ólympíumeistari, lauk hins vegar á miður skemmtilegan hátt.

„Það er mjög sorglegt að vera að hætta. Ég var að segja bless við stuðningsmennina og segja bless við íþróttina mína,“ sagði Bolt eftir að hafa gengið kveðjuhring um völlinn á lokadegi heimsmeistaramótsins í gærkvöld. Og hann útilokaði endurkomu.

„Ég hef séð of marga koma til baka bara til þess að kveðja á enn verri hátt. Ég mun ekki verða einn af þeim,“ sagði Bolt, en sem kunnugt er fór síðasta hlaupið hans illa þar sem hann meiddist og komst ekki í mark í lokasprettinum í 4x100 metra boðhlaupi.

„Þetta eina heimsmeistaramót mun ekki breyta því sem ég hef áður gert. Eftir að ég tapaði 100 metra hlaupinu kom einhver til mín og sagði mér að hafa engar áhyggjur því Muhammad Ali hefði einnig tapað sínum síðasta bardaga, ég ætti ekki að stressa mig,“ sagði Bolt sem áður hafði verið líkt við Ali sem goðsögn í sinni íþrótt.

„Ég hef sannað mig ár eftir ár og í gegnum allan ferilinn. Ég var að kveðja allt saman. Ég nánast grét, ég var nálægt en náði ekki í höfn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert