Hef verið heppin með tækifæri

Anita Hinriksdóttir er hér að keppa á Demantamóti í Stokkhólmi …
Anita Hinriksdóttir er hér að keppa á Demantamóti í Stokkhólmi í sumar. AFP

Aníta Hinriksdóttir keppir á þriðja Demantamóti sínu í sumar á sunnudaginn, en hún fékk boð um að keppa á mótinu í Birmingham. Það er þriðja síðasta mót tímabilsins í þessari sterkustu mótaröð heims í frjálsum íþróttum. Fyrr í sumar keppti Aníta í Ósló og Stokkhólmi, en á fyrra mótinu setti hún nýtt Íslandsmet í 800 metra hlaupi þegar hún hljóp á 2:00,05 mínútum.

„Ég hef verið nokkuð heppin með tækifæri. Þegar mótin eru í Skandinavíu er kannski aðeins léttara að komast inn, en ég var mjög ánægð með að fá þetta boð núna,“ sagði Aníta við Morgunblaðið í gær.

Þó að 800 metra hlaupið sé ekki ein af „demantagreinunum“ á mótinu í Birmingham, þ.e. úrslit þar telja ekki í stigakeppninni yfir allt tímabilið, eru gríðarsterkir keppendur með Anítu í hlaupinu. Nægir þar að nefna hina bandarísku Charlene Lipsey sem hljóp með Anítu í riðli á nýafstöðnu heimsmeistaramóti í London, hina svissnesku Selinu Büchel og Bretann Lynsey Sharp. Þá keppir Aníta einnig á ný við hina norsku Heddu Hynne og við Belgann Renée Eykens sem hafði af Anítu Evrópumeistaratitil 23 ára og yngri í sumar.

„Ég fékk boðið fyrir HM. Ég hélt að það yrði nú frekar valið á mótið eftir HM, út frá frammistöðu þar, og þá hefði ég kannski ekki fengið boðið, en það var voðalega þægilegt að frétta þetta,“ sagði Aníta, sem hefði viljað ná lengra á HM en missti naumlega af sæti í undanúrslitum.

Nánar er rætt við Anítu Hinriksdóttur í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert