MMA-reynslan vinnur með og á móti Conor

Floyd Mayweather (t.v.) og Conor McGregor (t.h.).
Floyd Mayweather (t.v.) og Conor McGregor (t.h.). AFP

Í nótt mætast Conor McGregor og Floyd Mayweather í einum stærsta íþróttaviðburði sögunnar. Floyd Mayweather er ósigraður í boxhringnum en Conor hefur ekki keppt í boxi síðan hann lagði boxhanskana á hilluna og sneri sér alfarið að MMA. Bardaginn fer fram í Las Vegas í Bandaríkjunum og hefur Gunnar Nelson mikla trú á vini sínum Conor.

Gunnar Nelson stendur með sínum manni, Conor.
Gunnar Nelson stendur með sínum manni, Conor. mbl.is/Árni Torfason

„Reynsluleysið mun vinna gegn honum, þegar hann er í boxhring á móti manni sem er búinn að vera á toppnum í 17 ár,“ segir Gunni. „En það sem hann hefur með sér er að hann er yngri, stærri, sterkari og faðmlengri. Ég hugsa að það muni einnig hjálpa honum að hann sé Southpaw,“ segir Gunni og vísar þá til þess að Conor sé örvhentur og staðan hans sé eftir því.

Gunnar verður ekki viðstaddur bardagann í Las Vegas vegna anna hér heima, en það kom þó til greina. „Ég stend fast með mínum manni og vonast til að hann slái Mayweather niður áður en bardaginn er hálfnaður,“ segir Gunnar. Hann telur Conor eiga góðar líkur á að sigra í bardaganum, meðal annars vegna þess að hann hafi stíl sem Mayweather er hreinlega ekki vanur.

AFP

„Allar þessar hreyfingar og stíll sem kemur úr MMA er eitthvað sem Mayweather er ekki vanur. Mayweather hefur alltaf verið góður með fjarlægð, heldur sig frá andstæðingnum og er snöggur inn og út. Flestir í MMA eru það líka en ekki boxarar,“ segir Gunni. „Conor er góður í því og fjarlægðin gæti því orðið önnur en Mayweather er vanur á móti hinum venjulega boxara. Síðan bara pressan sem Conor setur í bland við karate-hreyfingar í fótaburði, ég hugsa að það sé eitthvað sem gæti strítt Mayweather.“

Conor gæti haldið áfram í boxinu

Spurður hvort flestir Íslendingar haldi ekki með Conor í bardaganum á morgun segir Gunni að hann telji að flestir haldi með honum, ekki bara Íslendingar. „Almenni borgarinn heldur með Conor,“ segir Gunni og játar því að það geti spilað inn í að hann sé sá sem eigi á brattann að sækja, en auk þess sé hann almennt vel liðinn og margir vilji hreinlega sjá Mayweather tapa. 

„Einhverjir boxarar halda með Mayweather vegna þess að þeir halda að það líti illa út fyrir boxið ef hann tapar. Einhverjir halda jafnvel með honum þó þeir hafi ekki haldið með honum í fyrri bardögum,“ segir hann.

Spurður hvað taki við hjá Conor eftir bardagann í nótt segir Gunni full snemmt að spá í það, en á allt eins von á að hann taki annan boxbardaga. „Hann finnur sér væntanlega superfight og hann næði líklega að smyrja mestum pening á boxbardaga. Maður á eftir að sjá hvernig þetta þróast, ég myndi vilja sjá hann berjast aftur í MMA og það væri leiðinlegt að sjá hann fara þaðan út. En það er ómögulegt að segja fyrr en þessi bardagi er búinn.“

Margir boxarar óttast áhrifin á boxið ef McGregor sigrar boxmeistarann …
Margir boxarar óttast áhrifin á boxið ef McGregor sigrar boxmeistarann Mayweather í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert