Áfram launamunur á þessu tímabili

Breiðablik og Snæfell keppa hér í körfubolta kvenna. Minna er …
Breiðablik og Snæfell keppa hér í körfubolta kvenna. Minna er greitt fyrir dómgæslu á leikjum kvenna en karla í Dominos-deildinni. KKÍ vonast þó til að gera bragarbót á því á næsta keppnistímabili. mbl.is/Árni Sæberg

Þriggja dómara kerfi verður í öllum leikjum Dominos-deildar kvenna í körfubolta á þessu keppnistímabili. Sá munur sem er á greiðslu fyrir dómgæslu á leikjum karla og kvenna verður hins vegar ekki lagfærður fyrir en í fyrsta lagi næsta haust, þegar nýir samningar taka gildi.

Þetta segir Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands. Morgunblaðið fjallaði um launamuninn og mismunandi dómarakerfi í fyrra og sagði Hannes þá fyrirkomulagið óréttlátt og að jafnvel mætti kalla það asnalegt.

Frétt mbl.is: Minna greitt fyrir kvennaleiki

„Það var eitt ár eftir af samningnum þannig að nýir samningar taka ekki gildi fyrr en eftir þetta keppnistímabil,“ segir Hannes í samtali við mbl.is. Flöt hækkun kom þó ofan á alla dómarataxta nú í haust og er nú greitt 17.900 kr. fyrir hvern dæmdan leik í Dominos-deild karla en 12.800 kr. fyrir hvern leik í Dominos-deild kvenna.

Okkar skilningur að þetta verði lagað

Vinna við nýja samninga dómara fer í gang núna í nóvember, þegar við erum búin að koma keppnistímabilinu af stað. Við höfum alveg komið því áleiðis að það er klárlega okkar vilji og skilningur að þetta verði lagað í þeim samningum,“ segir Hannes, en hagsmunafélag dómara sér um að semja um kaup og kjör fyrir hönd dómaranna.

Samningurinn sem nú er í gildi var gerður 2014 og gildir út þetta keppnistímabil. Kveðst Hannes vonast til að mismunurinn verði því úr sögunni næsta haust.

Svonefnt tveggja og þriggja dómara kerfi var líka hluti af þessari umræðu. Þannig var þriggja dómara kerfi í Dominos-deild karla, en tveggja dómara kerfi í Dominos-deild kvenna. „Við vorum að vinna í að laga þetta á síðasta ári,“ segir Hannes. „Þá tókum við þriggja dómara kerfi upp í úrslitakeppninni hjá konunum og gáfum út á síðasta keppnistímabili að allir leikir í Dominos-deild kvenna á þessu ári verði þriggja dómara leikir.

Það eina sem nú stendur út af er munurinn á laununum milli deildanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert