Hjartnæmt bréf Serenu Williams

Serena Williams.
Serena Williams. AFP

Tennisstjarnan Serena Williams hefur sent móður sinni opið bréf þar sem hún þakkar fyrir hvernig hún hefur stutt við bakið á sér allan sinn feril.

Serena ól sitt fyrsta barn á dögunum og segist vonast til þess að geta verið eins góð móðir og hún fékk að upplifa sjálf. Sérstaklega vegna þess hvernig talað hefur verið til hennar fyrir kröftuga líkamsbyggingu og vöðva.

Bréf Serenu má lesa hér að neðan:

Elsku mamma

Þú ert ein af sterkustu konum sem ég þekki. Ég var að horfa á dóttur mína og sé að hún hefur handleggina og fótleggina eftir mér. Nákvæmlega mínu sterku, vöðvastæltu og kraftmiklu hendur og fætur. Ég veit ekki hvernig ég myndi bregðast við ef hún mun þurfa að fara í gegnum það sem ég hef þurft að gera síðan ég var 15 ára gömul.

Mér hefur verið líkt við karlmann vegna þess að ég lít sterklega út. Sagt hefur verið að ég noti eiturlyf (nei, ég hef alltaf verið réttsýn og myndi aldrei gera eitthvað ólöglegt til þess að ná betri árangi). Sagt hefur verið að ég eigi ekki heima í íþróttaheimi kvenna, að ég eigi að vera með körlunum, af því að ég líti út eins og ég sé sterkari en aðrar konur. Nei, ég legg bara hart að mér og fæddist með svona hörkulíkama sem ég er stolt af.

En mamma, ég skil ekki hvernig þú hefur ekki æst þig við hvern fréttamann, kynni eða manneskju – satt að segja hatara – sem hefur verið of fávís til þess að skilja styrkleikra blökkukvenna. Ég er stolt af því að við getum sýnt heiminum hvernig sumar konur líta út. Við erum ekki allar eins. Við erum þéttar, sterkar, vöðvastæltar, hávaxnar eða lágvaxnar, til að nefna eitthvað, en við höfum eitt sameiginlegt: Við erum konur og stoltar af því!

Þú ert mjög fáguð kona og ég vildi að ég gæti fylgt þér í því. Ég reyni hins vegar og Guð er ekki búinn með sínar fyrirætlanir til mín. Ég á langt eftir, en takk fyrir.

Takk fyrir að vera fyrirmyndin sem ég þurfti til þess að komast í gegnum allt það mótlæti sem ég hef litið á sem áskoranir. Ég vona að ég geti kennt dóttur minni, Alexis Olympia, það sama og að ég geti gefið jafn mikið af mér og þú.

Lofaðu mér því mamma, að þú munir halda áfram að hjálpa mér. Ég er ekki viss um að ég sé eins sterk og þú ert ennþá, en ég vonast til þess að ná því einn daginn. Ég elska þig af öllu hjarta.

Þín yngsta dóttir af fimm,

Serena.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert