Markatala á undan innbyrðisviðureignum

Hannes Þór Halldórsson, Kári Árnason og Birkir Már Sævarsson fagna …
Hannes Þór Halldórsson, Kári Árnason og Birkir Már Sævarsson fagna sigri Íslands gegn Tyrklandi í gær. AFP

Baráttan um sæti í lokakeppni HM 2018 í knattspyrnu karla úr I-riðli í undankeppni Evrópuþjóða gæti ráðist á annað hvort markatölu eða árangri Íslands annars vegar og Króatíu og Úkraínu hins vegar í innbyrðisviðureignum liðanna.

Ísland trónir á toppi riðilsins fyrir lokaumferðina með 19 stig, en liðið mætir Kósóvó í lokaumferð riðlakeppninnar. Króatía og Úkraína koma þar á eftir á eftir, en liðin mætast í Úkraínu í lokaumferðinni. 

Fari svo að Ísland geri jafntefli gegn Kósóvó á mánudagskvöldið og annað hvort Úkraína eða Króatía fer með sigur af hólmi í leik liðanna á sama tíma þá verða tvö lið jöfn á toppi riðilsins.

Reglur alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, gera ráð fyrir að litið sé til eftirtalinna þátta við ákvörðun þess hvort liðið myndi þá fara beint í lokakeppnina og hvort liðið færi í umspil.

  1. Fyrst er litið til þess hvaða lið er með bestu markatöluna í öllum leikjum sínum í riðlakeppninni. Króatía er með bestu markatöluna með níu mörk í plús, Ísland er með næstbestu markatöluna með sjö mörk sér í vil. Úkraína er með lökustu markatöluna með sex mörk sér í hag.  
  2. Séu lið með jafna markatölu í öllum leikjum sínum í riðlakeppninni hafnar það lið fyrir ofan sem hefur skorað fleiri mörk í öllum sínum leikjum í riðlakeppninni. Ísland stendur best að vígi þar með 14 mörk, en Króatía og Úkraína hafa hvort um sig skorað 13 mörk. 
  3. Ef lið eru með jafna markatölu og hafa skorað jafn mörg mörk í leikjum sínum í riðlakeppninni ráða úrslit í innbyrðisviðureignum liðanna úrslitum. Ísland stendur verr að vígi gegn Króatíu í innbyrðisviðureignum liðanna, en betur að vígi í innbyrðisviðureignum sínum gegn Úkraínu. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert