KA og Þróttur unnu hvort annað

KA vann Þrótt frá Neskaupstað í karlaflokki.
KA vann Þrótt frá Neskaupstað í karlaflokki. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

KA og Þróttur frá Neskaupstað mættust í bæði karla- og kvennaflokki á Íslandsmótinu í blaki í KA-heimilinu á Akureyri í gær og hvort félag vann þar einn sigur.

Í leik kvennaliðanna vann Þróttur Neskaupstað nokkuð örugglega, 3:0, eða 25:15, 25:14 og 25:10

Þróttarar komu mjög ákveðnar til leiks í annarri hrinu og náðu fljótlega fimm stiga forrystu. KA tók leikhlé í stöðunni 13:7 Þrótturum í vil. Þróttarar gáfu ekkert eftir og héldu áfram að auka forystuna. Voru þær komnar í 21:10.

Í þriðju hrinu byrjuðu Þróttarar vel og komust í 9:0.   KA stelpurnar náðu sér á gott skrið í lok hrinunnar en var það aðeins of seint í rassinn gripið. Hrinan endaði 25:10 Þrótturum í vil og unnu þar með leikinn 3:0. 

Stigahæst í leiknum var María Díaz Perez, leikmaður KA með 9 stig, öll úr sókn. Stigahæst í liði Þróttar Nes var Særún Birta Eiríksdóttir með átta stig, á eftir henni var Paula Del Olmo Gomez með sjö stig, og síðan Heiða Elísabet Gunnarsdóttir og María Bóel Guðmundsdóttir með sex stig hvor.

Karlalið KA byrjaði tímabilið á 3:0 sigri á  Þrótti úr Neskaupstað. Fyrsta hrina var mjög jöfn og bæði lið ætluðu sér greinilega að vinna þennan fyrsta leik mótsins. Staðan var 18:18 þegar Sigþór Helgason fór í uppgjöf og skoraði þrjá ása í röð og breytti stöðunni í 21:18, KA í vil. Þróttarar náðu að minnka muninn aftur en hávörn KA-manna gerði mjög vel í lok hrinunnar og Akureyringar tryggðu sér 25:21 sigur.

Annað var uppi á teningnum í næstu hrinu, þar sem að KA voru sterkari. Framan af hrinu var staðan nokkuð jöfn en brátt sigu KA fram úr og unnu að lokum örugglega, 25:18.

KA hóf þriðju hrinu einnig af krafti og komust fljótt í 6:1. Þróttarar tóku þá við sér og komust yfir 12:11. Spilið orðið töluvert stöðugra sem og mistökum fjölgaði hjá KA. Jafnt var í 16:16 en þá hrukku KA-menn enn einu sinni í gang og náðu afgerandi forystu, 20-16. Munurinn reyndist of mikill fyrir Þróttara og KA vann hrinuna að lokum 25:21, og þar með leikinn 3:0.

Stigahæstur í liði KA var Sigþór Helgason með 15 stig, en 7 af þeim komu beint úr uppgjöf. Miguel Mateo skoraði einnig 15 stig fyrir Þrótt. Þessi sömu lið mætast aftur á þriðjudag, þá á heimavelli Þróttar í Neskaupstað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert