Þetta gerist ekki aftur

Guðmundur Helgi Pálsson
Guðmundur Helgi Pálsson mbl.is/Árni Sæberg

„Við gefumst upp eftir svona 10 mínútna leik, þá erum við að missa menn útaf og í staðinn fyrir að aðrir stígi upp þá gefast menn upp, ef þú gerir það á móti Haukum þá geturðu bara hent inn handklæðinu,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, eftir 39:30 tap gegn Haukum á Ásvöllum í 5. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld.

Eftir jafnar fyrstu mínútur tóku Haukar öll völd á vellinum og Guðmundur var ómyrkur í máli um frammistöðu sinna manna.

„Við bara gáfumst upp, bara allir frá A-Ö, og þegar það gerist þá eigum við bara ekki séns á móti jafn sterku liði og Haukum. Þeir voru vel skipulagðir, skoruðu nánast þegar þeir vildu og við fengum ekki markvörslu né vörn, það var ekkert sem gekk upp. Björgvin Páll greip einhverja fimm eða sex bolta, það er bara lýsandi dæmi um uppgjöf.“

Fram tapaði illa í fyrstu umferðinni gegn FH en virtist vera búið að snúa blaðinu við þangað til í kvöld en Guðmundur segir að þetta muni ekki gerast aftur.

„Þetta er jó-jó og við vissum það alveg fyrir mót en svona uppgjöf er ekki í boði. Ef einhverjir eru að meiðast og detta út þá eiga hinir að koma tvíefldir til leiks. Ég er mest svekktur með það hjá mínum mönnum, ég er búinn að tala við þá, þeir vita það og þetta gerist ekki aftur.“

Framarar hentu Haukum óvænt úr úrslitakeppninni í fyrra í dramatískum oddaleik og ljóst að sú úrslit hafa ekki gleymst á Ásvöllum en heimamenn náðu fram hefndum í kvöld.

„Við vissum að þeir kæmu alveg brjálaðir til leiks enda gerðum við þeim grikk í fyrra. Við mættum ágætir til leiks og þetta var jafnt fyrstu mínúturnar en svo dettur botninn úr, því miður. Við verðum bara að halda áfram að æfa og halda áfram að gera góða hluti, boltinn er svona og við höldum bara áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert