Dregið í riðla í undankeppni EM

Íslenska kvennalandsliðið í blaki keppir í undankeppni EM.
Íslenska kvennalandsliðið í blaki keppir í undankeppni EM. Ljósmynd/A&R Photos

Landslið Íslands í blaki taka bæði þátt í næstu Evrópukeppni landsliða. Árangur liðanna undanfarin ár tryggir þátttökurétt okkar liða en undankeppnin verður leikin með nýju sniði. 

Landsliðsnefnd og stjórn BLÍ ákváðu síðsumar að skrá bæði liðin til leiks í Evrópukeppni landsliða sem klárast árið 2019. Á næsta ári fer fram undankeppni þar sem leikið er í riðlum heima og að heiman. Keppnin hefst 15. ágúst en alls eru 4 leikir í ágúst og tveir í janúar 2019. Þetta er í fyrsta sinn sem karlalandslið Íslands tekur þátt í EM en kvennaliðið tók þátt í undankeppni EM árið 2008 þegar liðið beið lægri hlut gegn Makedóníu í tveimur leikjum ytra í 1. umferð. 

Dregið var í riðla í vikunni þar sem íslenska karlalandsliðið lenti í C riðli með Slóvakíu, Svartfjallaland og Moldavíu. Alls eru 26 lið sem taka þátt í undankeppni karla í 7 riðlum en 12 lið eru þegar komin með sæti í lokakeppni EM sem haldin verður í fyrsta sinn í fjórum löndum (Frakklandi, Slóveníu, Belgíu og Hollandi). Úr undankeppninni fara sigurvegarar riðlanna sjö auk 5 lið með bestan árangur í 2. sæti. 

Kvennalandslið Íslands lenti í A riðli með Belgíu, Ísrael og Slóveníu. Alls eru 24 lið sem taka þátt í undankeppni kvenna í 6 riðlum en 12 lið eru þegar komin með sæti í lokakeppni EM sem haldin verður í Tyrklandi, Póllandi, Ungverjalandi og Tékklandi haustið 2019. Úr undankeppninni fara tvö efstu sætin úr riðlunum í lokakeppni EM. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert