„Ótrúlega góður dagur“

Fanney Hauksdóttir.
Fanney Hauksdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Fanney Hauksdóttir gerði sér lítið fyrir og varði Evrópumeistaratitil sinn í bekkpressu í -63 kg. flokki á La Manga á Spáni á laugardaginn. Fanney hefur orðið Evrópumeistari í greininni síðustu þrjú ár, sem er glæsilegur árangur.

Fanney lyfti 155 kílóum strax í fyrstu lyftu og nægði það til sigurs. Hún reyndi tvívegis við 160 kíló, sem hefði verið hennar besti árangur og þar með nýtt Íslands- og Norðurlandamet, en það tókst ekki að þessu sinni.

„Þetta er í þriðja skipti í röð sem ég vinn þennan titil og það er ótrúlega gaman. Það er líka gaman að verja titil og vonandi get ég haldið því áfram,“ sagði Fanney í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Þetta var ótrúlega góður dagur. Ég stóð uppi sem sigurvegari svo þetta gat varla farið betur. Það hefði verið gaman að ná upp 160 kílóum sem ég reyndi við en það kemur síðar. Ég var mjög nálægt því í fyrri tilrauninni og það var pínu pirrandi hversu nálægt því ég var þá, en svo var ég svolítið búin á því þegar ég reyndi í annað skiptið,“ sagði Evrópumeistarinn.

Fanney keppir ekki meira á árinu, en hún ætlar að æfa vel á næstu vikum og koma enn sterkari til keppni á næsta ári. „Þetta var síðasta stóra mótið á árinu og nú tekur við tímabil þar sem ég æfi mikið. Það er ekkert mót fyrr en eftir áramót og ég verð að nýta tímann vel og reyna að byggja mig upp fyrir næsta keppnistímabil. Ég ætla að undirbúa mig vel og reyna að ná þessum 160 kílóum á næsta móti,“ sagði Fanney, sem á best 157,5 kíló í bekkpressu, sem er Íslands- og Norðurlandamet.

Sjá allt viðtalið við Fanneyju í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert