Ógnar einhver stjörnunum í Golden State?

Kevin Durant fer framhjá LeBron James í rimmu Golden State …
Kevin Durant fer framhjá LeBron James í rimmu Golden State og Cleveland síðasta vor. AFP

Fyrir ári spáðum við á þessum síðum Golden State Warriors yfirburðum í NBA-deildinni í körfuknattleik og ekki er hægt að sjá að nokkurt annað lið ógni Stephen Curry og félögum á komandi keppnistímabili frekar en þá.

Slíkar spár geta að sjálfsögðu breyst með meiðslum lykilleikmanna – sérstaklega í úrslitakeppninni – en jafnvel þótt annaðhvort Stephen Curry eða Kevin Durant myndu meiðast í úrslitakeppninni ættu Warriors enn gott tækifæri á að vinna titilinn.

Cleveland Cavaliers, Boston Celtics og Houston Rockets gætu veitt Warriors keppni, en sanngirnin segir að erfitt sé að sjá það gerast eins og staðan er nú.

Vildi ekki vera Robin

Stóra sprengjan í Austurdeildinni í sumar varð þegar Kyrie Irving setti forráðamenn Cleveland Cavaliers upp við vegg og sagðist ekki lengur vilja spila fyrir liðið. Hann er samningsbundinn en sagðist vilja vera aðalstjarnan hjá liði – vildi ekki vera Robin, aðstoðarmaður Leðurblökumannsins (LeBron James).

Cleveland hefði einfaldlega getað sagt við hann: „Þú ert á samningi og spilar þar sem þér er sagt.“ Það datt hins vegar framkvæmdastjóra liðsins aldrei í hug og eftir samninga við Boston Celtics skiptu liðin á lykilleikmönnum. Irving fór til Boston í skiptum fyrir leikstjórnandann Isaiah Thomas. Þetta voru ekki leikmannaskipti sem Cleveland vildi gera, en rétt einu sinni tók stjörnuleikmaður sig til og einfaldlega neyddi lið sitt til að fara í leikmannaskipti.

Þrátt fyrir brotthvarf Irvings ætti Cleveland að komast í lokaúrslitin úr Austurdeildinni, því liðið hefur LeBron James enn á sínum snærum. Jae Crowder, sem kom með Thomas frá Boston í leikmannaskiptunum í sumar, ætti að gera James aðeins auðveldara fyrir í hörkuleikjum í vetur. Hann mun geta varið sterka framherja, James hefur venjulega haft það hlutverk. Það ætti að létta aðeins á James og veita honum meiri hvíld í leikjum.

Eftir þetta keppnistímabil er James með lausan samning við Cavaliers. Það kæmi mikið á óvart ef hann sneri baka til Cleveland eftir þetta ár. Þetta verður því væntanlega í síðasta sinn sem Cleveland er með í toppbaráttunni í langan tíma.

Ítarlega er fjallað um komandi tímabil í NBA-deildinni í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert