Verðum að bæta aðstöðuna hér heima

Ásgrímur Helgi Einarsson er formaður keilusambands Íslands.
Ásgrímur Helgi Einarsson er formaður keilusambands Íslands. Ljósmynd/Guðjóns Júlíusson

„Það er alltaf gaman þegar mögulegt er að tilkynna að það gangi vel. Við erum að fara í fyrsta skipti á heimsmeistaramóti bæði með kvenna- og karlalið og það er afar ánægjulegt. Þetta eru mikil gleðitíðindi,“ sagði Ásgrímur Helgi Einarsson, formaður keilusambands Íslands, í samtali við mbl.is eftir að tilkynnt hafði verið um landsliðshópa Íslands sem taka munu þátt í heimsmeistaramóti í keilu sem haldið verður í Las Vegas um mánaðarmótin nóvember og desember. 

„Bæði lið ættu að geta hafnað um miðju að mínu mati. Við förum með þær væntingar og markmið að vera á því ról. Kvennaliðið tryggði sér sæti á mótinu með góðum árangri á Evrópumeistaramótinu í Vín síðasta sumar, en karlaliðið fór inn bakdyramegin. Það verður gaman að sjá hvernig gengur,“ sagði Ásgrímur Helgi um markmið liðanna. 

Keilusamband Íslands fékk í dag 1.600.000 krónur í afreksstyrk frá íþróttasambandi Íslands og Ásgrímur Helgi er afar þakklátur fyrir þann styrk. Ásgrímur Helgi bendir hins vegar á að aðstöðuleysi standi frekara afreksstarfi fyrir þrifum. 

„Þetta er kærkominn styrkur fyrir lítið samband eins og okkur. Allir peningar koma okkur vel og þetta gerir okkur kleift að gera gott afreksstarf enn betra. Það er hins vegar þannig að slæm aðstaða sníður okkur lítinn stakk til þess að færa út kvíarnar með afreksstarfið. Það er aðeins einn salur sem stendur okkur og um leið almenningi til boða. Því þarf að breyta og bæta úr sem allra fyrst,“ sagði Ásgrímur Helgi um styrkinn og aðstöðumál keilunnar á Íslandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert