Góður árangur íslensku keppendanna

Íslensku karla- og kvennalandsliðin í fimleikum áttu afar góðan dag á Norður-Evrópumótinu sem fram fer í Þórshöfn í Færeyjum um helgina. Á Norður-Evrópumóti mynda fimm fimleikmenn lið, en fjórir þeirra keppa á hverju áhaldi og árangur þriggja telja til stiga í liðakeppni.

Karlaliðið keppti í fyrsta hluta mótsins í morgun og fékk samtals 226.500 stig fyrir sínar æfingar. Strákarnir gerðu fá mistök og þar sem þau urðu náðu liðsfélagarnir að bæta upp fyrir þau og lauk liðið keppni með ekkert fall. Biðin eftir úrslitum í síðasta hluta var erfið. Í öðrum hluta fóru Norðmenn upp fyrir Ísland með 230.250 stig og í þriðja og síðasta hlutanum var spennan gríðarleg. Það var ekki fyrr en á síðasta áhaldi sem ljóst var að karlaliðið yrði af verðlaunasæti þegar Svíþjóð og Skotland fóru upp fyrir íslenska liðið á töflunni.

Kvennakeppnin var ekki síður spennandi. Íslensku stelpurnar kepptu í öðrum hluta mótsins í dag og voru í fyrsta sæti að honum loknum. Noregur og Skotland sóttu hart að íslenska liðinu og höfðu þær norsku að lokum sigur með 0,968 stigum betur en íslenska liðið. Íslensku stelpurnar unnu einnig vel saman sem lið og luku keppni með eitt fall.

Irina Sazonova varð í öðru sæti í keppni í fjölþraut. Irina Sazonova er í úrslitum á gólfi, slá og tvíslá, Agnes Suto-Tuuha á gólfi og slá, Thelma Aðalsteinsdóttir á tvíslá og Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir á stökki.

Í karlakeppninni eru Eyþór Baldursson og Valgarð Reinharðsson í úrslitum á stökki, Jón Sigurður Gunnarsson á hringjum og tvíslá. Valgarð er einnig í úrslitum á svifrá. Á morgun verður keppt í úrslitum á einstaka áhöldum. Arnþór Daði Jónasson, Martin Bjarni Guðmundsson og Dominiqua Alma Belányi kepptu einnig fyrir Íslands hönd í einstaklingskeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert