Arnar og Andrea sigurvegarar

Arnar Pétursson.
Arnar Pétursson. mbl.is/Árni Sæberg

Haustmaraþon félags maraþonhlaupara fór fram á laugardaginn við frábærar aðstæður. Sigurvegari í hálfu maraþoni karla varð Arnar Pétursson á tímanum 1:15,26 klst. Næstur á eftir Arnari varð Guðni Páll Pálsson en hann hljóp á tímanum 1:15,34 klst.

Andrea Kolbeinsdóttir sigraði í hálfu maraþoni kvenna á frábærum tíma 1:22:30 mín en Elín Edda Sigurðardóttir varð í 2. sæti aðeins 30 sekúndum á eftir Andreu.

Í heilu maraþoni sigraði Rúnar Örn Ágústsson á tímanum 02:52:54 og var hann tæplega 16 mínútum á undan næsta manni, en Hörður Jóhann Halldórsson kom á 03:08:30. Verena Schnurbus kom fyrst kvenna í heilu maraþoni á tímanum 03:13:40 og Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir var á 03:39:10 í öðru sæti.

Tími Andreu er annar besti árstími íslenskrar konu en Elín Edda hefur hlaupið hraðast 1:21:25 klst. í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar. Besta tímann á þjálfari þeirra, Andreu og Elínar,  Martha Ernstsdóttir, sem hljóp á tímanum 1:11.40 klst. árið 1996.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert