Conor McGregor biðst afsökunar en samt ekki

Conor McGregor.
Conor McGregor. AFP

Írski bardagakappinn Conor McGregor komst í fréttirnar á dögunum eftir að hafa ráðist á dómara án þess að hafa verið að keppa sjálfur. Nú hefur afsökunarbeiðni hans ekki vakið minni athygli.

Conor ruddist inn í búrið til að fagna með félaga sínum sem hafði unnið bardaga. Dómarinn var ekki sáttur með þetta og ætlaði að senda Conor burt, en það fór ekki vel í þann írska. Í stað þess að fara sá Conor rautt og réðst að dómaranum.

Conor sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann í rauninni kennir dómaranum um hvernig fór.

„Ég missti mig og fyrir það biðst ég afsökunar, en dómarinn tók fáránlega ákvörðun þegar hann reyndi að draga rotaðan bardagamann aftur á lappir. Bardaginn var búinn. Eftir að hafa orðið vitni að því að bardagamaður lést vegna áverka þá fannst mér eins og það versta gæti aftur gerst,“ sagði McGregor.

mbl.is