Björn Lúkas tapaði úrslitabardaganum

Björn Lúkas Haraldsson á æfingu áður en hann hélt til …
Björn Lúkas Haraldsson á æfingu áður en hann hélt til Bahrein á heimsmeistaramótið. Ljósmynd/Mjölnir

Bardagamaðurinn Björn Lúkas Haraldsson tapaði úrslitabardaganum sínum á heimsmeistaramóti áhugamanna í MMA í dag. Svíinn Khaled Laallam reyndist of sterkur og fór með sigur af hólmi. Björn Lúkas fer hins vegar með silfrið heim. Þetta kemur fram á mmafrettir.is.

Björn Lúkas hafði unnið þrjá bardaga í vikunni með armlás af bakinu og reyndi ítrekað að ná Svíanum í lásinn. Björn Lúkas var ekki langt frá því strax á fyrstu mínútu bardagans og virtist vera hársbreidd frá því að vinna bardagann.

Laallam varðist þó mjög vel öllum árásum Björns af bakinu út bardagann og var sterkari. Bardaginn fór að mestu leyti fram í gólfinu og í standandi glímu. Björn reyndi og reyndi að sækja í lása en alltaf varðist Laallam vel.

Svo fór að hinn sænski Khaled Laallam sigraði eftir dómaraákvörðun. Björn Lúkas getur þó borið höfuðið hátt eftir frábæra frammistöðu á mótinu. 29 bardagamenn voru í flokknum og tekur Björn silfrið heim.

Björn, sem er aðeins 22 ára,hafði unnið alla bardaga sína til þessa í fyrstu lotu þar til í kvöld. Hann er núna 6:1 á ferli sínum sem áhugamaður og má telja líklegt að hann fari fljótlega í atvinnumennsku, að því er fram kemur í frétt MMA frétta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert