Sveit SH setti nýtt Íslandsmet

Hrafnhildur Lúthersdóttir og félagar hennar í sveit SH settu Íslandsmet …
Hrafnhildur Lúthersdóttir og félagar hennar í sveit SH settu Íslandsmet í dag, en hún vann þar að auki tvenn önnur gullverðlaun. mbl.is/Haraldur Jónasson

Íslandsmeistaramótið í 25 metra laug í sundi hélt áfram í dag og voru 14 Íslandsmeistaratitlar í boði þegar keppt var í Laugardalshöllinni í dag.

Sveit SH setti Íslandsmet í 4*100 metra fjórsundi kvenna, en Íslandsmet sveitarinnar er 4:13,88 sekúndur. Sveitina skipuðu Katarína Róbertsdóttir, Hrafnhildur Lúthersdóttir, Ingibjörg Kristín Jónsdóttir og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir.  

Hrafnhildur Lúthersdóttir nældi sér í þrenn gullverðlaun í dag, en auk þess að vinna gull með SH í 4*100 metra fjórsundi varð hún Íslandsmeistari í 100 metra fjórsundi og 200 metra bringusundi kvenna . Sigurtími Hrafnhildar í 100 metra fjórsundinu var 1:01,07 sekúndur,  2:39,62 sekúndur dugði henni til sigurs í 200 metra bringusundinu.

Karlasveit SH fetaði í fótspor kvennasveitar félagsins þegar hún sigraði í 4*100 metra skriðsundi á tímanum 3:24,10 sekúndur. Sveitina skipuðu Predrag Milos, Ólafur Árdal Sigurðsson, Kolbeinn Hrafnkelsson og Aron Örn Stefánsson.

Sunneva Dögg Robertson varð Íslandsmeistari í 200 metra skriðsundi í kvennaflokki, en hún synti á tímanum 2:03,27 sekúndur. Aron Örn Stefánsson kom fyrstur í bakkann í 200 metra skriðsundi í karlaflokki, en tími hans var 1:51,42 sekúndur. Þetta voru önnur gullverðlaun Arons Arnar í dag.  

Inga Elín Cryer tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í 100 metra flugsundi kvenna með því að synda á tímanum 1:02,26 sekúndum. Ágúst Júlíusson varð hlutskarpastur í 100 metra flugsundi karla, en tími hans, 54,62 sekúndur dugði honum til sigurs.

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir varð Íslandsmeistari í 50 metra baksundi kvenna, en sigurtími hennar var 27,68 sekúndur. Kolbeinn Hrafnkelsson hreppti Íslandsmeistaratitilinn í 50 metra baksundi karla með því að synda á tímanum 24,90 sekúndum. Kolbeinn vann því til tvennra gullverðlauna í dag.  

Patrik Viggó Albertsson hafði nokkra yfirburði í 400 metra fjórsundi karla, en hann tryggði sér sigurinn með því að synda á tímanum 4:34,72 sekúndum. Patrik Viggó vann önnur gullverðlaun sín þegar hann tryggði sér sigur í 800 metra skriðsundi með því að synda á tímanum 8:29,44 sekúndur.

Hallgrímur Kjartansson nældi sér í gullverðlaun í 200 metra bringusundi karla, en hann synti á tímanum 2:24,64 sekúndum. Bryndís Bolladóttir synti til sigurs í 800 metra skriðsundi kvenna, en hún kom í bakkann á tímanum 9:03,66 sekúndum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert