Sundsambandið hættir við umdeilda ákvörðun

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir stingur sér til sunds, en hún gagnrýndi …
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir stingur sér til sunds, en hún gagnrýndi Sundsambandið harðlega. mbl.is/Hari

Sundsamband Íslands hefur hætt við að styrkja stjórnarmenn sem vilja fara á Evrópumeistaramótið í sundi í 25 metra laug sem fram fer í Kaupmannahöfn í desember. Frétt Morgunblaðsins og mbl.is um málið hefur vakið gríðarlega athygli í dag.

Þar steig landsliðskonan Ingibjörg Kristín Jónsdóttir fram og gagnrýndi það að keppnisfólk þarf yfirleitt að standa straum að eigin kostnaði við mót erlendis, og gagnrýndi forgangsröðun sambandsins að styrkja stjórnarmenn til þess að fara á mótið.

Sundsambandið sendi frá sér fréttatilkynningu nú rétt í þessu þar sem sú ákvörðun var felld, en lesa má tilkynninguna í heild sinni hér að neðan.

„Á stjórnarfundi Sundsambands Íslands þann 14. nóvember síðast liðinn, samþykkti stjórn SSÍ einróma, að leggja að hámarki til kr. 50.000 í styrk fyrir hvern stjórnarmann SSÍ sem sækir Evrópumeistaramótið í 25 metra braut, sem haldið er í Kaupmannahöfn í desember. Á fundinum kom fram að þessi kostnaður væri ekki tekinn úr sjóðum sem ætlaður væri til reksturs landsliða.

Þennan fund sátu Hörður J. Oddfríðarson formaður, Jón Hjaltason varaformaður, Björn Sigurðsson gjaldkeri, Hilmar Örn Jónasson (sat hjá), Hrafnhildur Lúthersdóttir, Elsa María Guðmundsdóttir (í skype sambandi) og Helga Sigurðardóttir varastjórnarmaður.

„Stjórn SSÍ hefur nú í dag í netkosningu, samþykkt að fella fyrri samþykkt úr gildi og verður því ekki af því að SSÍ styrki stjórnfólk til þessarar ferðar.

Stjórn SSÍ samanstendur af áhugafólki um sundíþróttir, þar sitja foreldrar sundfólks, fyrrum og núverandi afreksfólk í sundi, fyrrverandi og núverandi þjálfarar og fólk sem vill veg sundíþrótta sem mestan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert