Þuríður fór mikinn í Kaliforníu

Þuríður Erla Helgadóttir.
Þuríður Erla Helgadóttir. Ljósmynd/Kraftlyftingasamband Íslands

Þuríður Erla Helgadóttir náði frábærum árangri kvöld í -58 kg flokki á HM í ólympískum lyftingum sem fram fer í Kaliforníu um þessar mundir. Þuríður varð önnur af sjö keppendum í B-grúppu. Þuríður fór með allar sínar sex lyftur í gegn, í snörun hóf hún keppni á 79 kg, því næst lyfti hún 83 kg sem var nýtt Íslandsmet í -58 kg flokk og í þriðju lyftu bætti hún um betur og lyfti 86 kg, einu kg minna en hin kanadíska Tali Darsigny. Í jafnhendingunni byrjaði Þuríður á 97 kg, fór síðan í 103 kg og loks lyfti hún 108 kg sem var bæting á Íslandsmetinu um 4 kg og alls 9 kg bæting á metinu í samanlögðum árangri.

Þuríður Erla Helgadóttir, reyndasti keppandi Íslands í kvennaflokki í ólympískum lyftingum, var að keppa á sínu öðru heimsmeistaramóti í -58 kg flokki en hún varð í þrettánda sæti á Evrópumeistaramótinu í apríl. 24 keppendur voru upphaflega skráðir til leiks í -58 kg flokkinn og var Þuríður með 20. besta árangurinn inn í mótið en aðeins 18 keppendur hefja keppni eftir vigtun og þyngdarflokkabreytingar og er Þuríður örugg í 13. sætinu eins og stendur þegar þetta er skrifað.

Sigurstranglegust í -58 kg flokki Þuríðar er hin tævanska KUO Hsing-Chun en hún er heimsmethafinn í jafnhendingu og bronsverðlaunahafi frá Ríó. Lettneska ungstirnið og silfurverðlaunahafinn frá Evrópumeistaramótinu, Rebeka Koha, er með næsthæsta árangurinn inn í mótið í -58 kg flokki og er einn af þeim keppendum í kvennaflokki sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu en hún er ríkjandi heims- og Evrópumeistari 20 ára og yngri.

Heimsmeistaramótið í ólympískum lyftingum fer fram í Kaliforníu dagana 28. nóvember til 5. desember en um 400 keppendur frá 72 löndum eru skráðir til keppni þar af fjórir íslenskir keppendur í kvennaflokki. Björk Óðinsdóttir keppir á morgun í B-grúppu í -63 kg flokki og Sólveig Sigurðardóttir og Aníta Líf Aradóttir keppa í B-grúppu í -69 kg flokki á föstudaginn, þær allar eru að keppa á stórmóti í ólympískum lyftingum í fyrsta sinn en Aníta Líf er ríkjandi Norðurlandameistari í -69 kg flokki.

Níu stórþjóðir í lyftingum eru ekki með lið á mótinu eftir að hafa hafa verið settar í bann af Alþjóðalyftingasambandinu (IWF) vegna fjölda íþróttamanna sem féllu á lyfjaprófum eftir að sýni þeirra voru endurprófuð frá ólympíuleikunum 2008 og 2012. Þjóðirnar eru Rússland, Kína, Kasakstan, Armenía, Aserbaídsjan, Hvíta-Rússland, Moldavía, Úkraína og Tyrkland. Einnig sendir Norður-Kórea ekki lið á mótið sem einnig er stórþjóð í íþróttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert