Björk bætti Íslandsmetin

Björk Óðinsdóttir er hér að setja Íslandsmetið í snörun.
Björk Óðinsdóttir er hér að setja Íslandsmetið í snörun. Ljósmynd/Lyftingasamband Íslands

Björk Óðinsdóttir hafnaði í 7. sæti af 12 keppendum í B-grúppu í -63 kg flokki kvenna á heimsmeistaramótinu í ólymp­ísk­um lyft­ing­um sem fram fer í Kali­forn­íu í Bandaríkjunum.

Björk setti Íslandsmet í snörun þegar hún snaraði 85 kg í annarri tilraun og tvíbætti síðan metið í jafnhendingu þegar hún lyfti 106 kg í fyrstu tilraun og 109 kg í annarri, Björk reyndi síðan við 112 kg í þriðju tilraun og sat undir þeirri þyngd en það hefði verið þyngsta jafnhending íslenskrar konu frá upphafi.

Árangurinn 194 kg er nýtt íslandsmet í samanlögðu en Þuríður lyfti sömu þyngd í gær í -58 kg flokki. Björk var með slakasta árangurinn skráðan inn í mótið í -63 kg flokki kvenna og því er þetta frábær árangur.

Hin finnska Saara Leskinen átti einnig gott mót og fór með 5/6 lyftum í gegn en lyfti einu kílói minna en Björk, sænski ólympíufarinn Angelica Roos féll úr keppni í snörun þegar hún náði ekki að lyfta opnunarþyngdinni sinni, 85 kg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert