Tíðinda að vænta hjá Dortmund

Leikmenn Dortmund ganga niðurlútir af velli eftir tapið gegn Werder …
Leikmenn Dortmund ganga niðurlútir af velli eftir tapið gegn Werder Bremen í gær. AFP

Þýska knattspyrnuliðið Borussia Dortmund hefur boðað til fréttamannafundar í hádeginu og er fastlega reiknað með því að félagið muni þar greina frá því að það hafi ákveðið að reka þjálfarann Peter Bosz frá störfum.

Hvorki hefur gengið né rekið hjá Dortmund síðustu vikurnar. Eini sigurleikur liðsins í síðustu 13 leikjum var gegn 3. deildar liðinu Magdeburg í bikarkeppninni. Liðið tapaði á heimavelli fyrir Werder Bremen í gær og eftir hafa verið í toppsætinu fyrir nokkrum vikum er Dortmund nú í 7. sæti og er fallið úr leik í Meistaradeildinni.

Peter Bosz tók við þjálfun Dortmund í sumar en hann var áður þjálfari hollenska liðsins Ajax og kom því í úrslit Evrópudeildarinnar á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert