Er fulltrúi fólksins en ekki Trump

Lindsey Vonn.
Lindsey Vonn. AFP

Pólitísk umræða hefur aukist vegna staðsetningar Vetrarólympíuleikanna í Suður-Kóreu í febrúar. Ein stærsta íþróttastjarna Bandaríkjanna sendi Donald Trump Bandaríkjaforseta skýr skilaboð í viðtali. 

Lindsey Vonn, ólympíumeistari í bruni 2010 og tvöfaldur heimsmeistari í alpagreinum, segist vera fulltrúi Bandaríkjamanna á Ólympíuleikunum en ekki fulltrúi Donalds Tumps. Lét hún þessi ummæli falla í viðtali við CNN og vakti mikla athygli vestan hafs. Spurð í framhaldinu hvort hún myndi þiggja boð í Hvíta húsið að leikunum loknum sagði hún svo ekki vera. „Ég vil vera góður fulltrúi fyrir Bandaríkin en ég er ekki viss um að margir í ríkisstjórninni séu það.“

Þessa dagana hefur verið nokkuð undarleg umræða í fjölmiðlum í Bandaríkjunum um hvort ríkisstjórnin vilji senda íþróttafólk á leikana vegna nálægðarinnar við Norður-Kóreu. Ólympíusambandið í Bandaríkjunum tekur hins vegar slíkar ákvarðanir en ekki ríkisstjórnin. 

Vonn segir nú á samskiptamiðlum að hún hafi fengið mikil viðbrögð við ummælum sínum, bæði jákvæð og neikvæð. Hún hafi raunar fengið mjög kaldar kveðjur þar sem henni sé óskað þess að hálsbrjóta sig í brunkeppninni. 

Vonn reynir nú að lægja öldurnar og segist vonast eftir því að Bandaríkjamenn geti stutt sig í keppni þótt hún sé ekki stuðningsmaður forsetans. Vonn bætir því þó við að á keppnisferðum sínum um heiminn hafi hún orðið vör við mikla gagnrýni á Bandaríkin og stjórnmálin í landinu. „Ekki er hægt að kíkja í dagblað eða kveikja á sjónvarpinu í Evrópu án þess að sjá efasemdir um hvaða stefnu Bandaríkin eru að taka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert