Hrafnhildur mætir 12. til leiks

Hrafnhildur Lúthersdóttir keppir í dag á EM.
Hrafnhildur Lúthersdóttir keppir í dag á EM. mbl.is/Hari

Hrafnhildur Lúthersdóttir keppir í dag í sinni einu grein á Evrópumótinu í sundi í 25 m laug en mótið hefst í Royal Arena í Kaupmannahöfn í dag.

Hrafnhildur er upptekin í prófum og keppir því aðeins í 50 m bringusundi en undanrásir í þeirri grein eru snemma í dag og undanúrslit og úrslit síðdegis. Hún var einnig með keppnisrétt í 100 og 200 m bringusundi en sleppir þeim greinum.

Hrafnhildur er í 12. til 13. sæti á styrkleikalista Evrópu í 50 m bringusundi á árinu 2017 en hún synti á 30,42 sekúndum á Íslandsmótinu í síðasta mánuði og setti Íslandsmet. Hún á því góða möguleika á að komast í undanúrslit og raunhæfa möguleika á að ná inn í úrslitasundið þar sem átta bestu keppa um Evrópumeistaratitilinn.

Eygló Ósk Gústafsdóttir keppir í 100 metra baksundi í dag. Undanrásir eru um morguninn og undanúrslit síðdegis en úrslitasundið er á morgun. Eygló hefur verið að vinna sig upp á ný eftir meiðsli og er ekki framarlega á styrkleikalistanum í ár. Íslandsmet hennar í greininni frá 2015 er 57,42 sekúndur, en það hefði dugað til að komast í fjórða sætið í Evrópu á þessu ári.

Mótið stendur yfir til sunnudags og Eygló keppir í 200 m baksundi á föstudag og 50 m baksundi á laugardag. Ingibjörg Kristín Jónsdóttir keppir í 50 m flugsundi, 50 m baksundi og 50 m skriðsundi á mótinu, Kristinn Þórarinsson í 50 m baksundi, 100 m fjórsundi og 200 m fjórsundi, Aron Örn Stefánsson í 50 m skriðsundi og 100 m skriðsundi og Snæfríður Sól Jórunnardóttir keppir í 200 m skriðsundi.

Þá verður Ísland með blandaðar sveitir í bæði 4x50 m skriðsundi og 4x50 m fjórsundi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert