Kristín Valdís skautakona ársins

Kristín Valdís Örnólfsdóttir.
Kristín Valdís Örnólfsdóttir. Ljósmynd/Skautasamband Íslands

Skautasamband Íslands tilnefndi Kristínu Valdísi Örnólfsdóttur sem skautakonu ársins 2017. Kristín Valdís æfir með Skautafélagi Reykjavíkur og er þetta í fyrsta sinn sem hún hlýtur nafnbótina Skautakona ársins. Þjálfari Kristínar er Guillaume Kermen. 

Kristín Valdís hefur náð viðmiðum inn í úrvalshóp ÍSS í junior-flokki og keppti í þeim keppnisflokk á árinu. Meðaltal af heildarskori Kristínar Valdísar á árinu er 91,43 stig.

Kristín Valdís hefur verið virkur keppandi bæði innanlands og utan á árinu. Hún keppti í junior-flokki á Norðurlandamóti 2017 og hafnaði þar í 18. sæti með 78,16 stig. Hún keppti fyrir hönd Íslands á ISU Junior Grand Prix Riga Cup 2017 og hafnaði þar í 27. Sæti með 90,49 stig og er samanlögð heildareinkunn nú stigamet íslensk skautara á JGP frá upphafi sem trompar met sem staðið hafði frá árinu 2012.

Kristin Valdís keppti einnig á Volvo Cup Open 2017 í junior-flokki og hafnaði þar í 19. sæti með 93,91 stig, efst íslensku skautaranna sem kepptu í þeim flokki. Á íslenskum mótum hafnaði hún í 11. sæti á RIG 2017 með 85 stig, 1. sæti á Haustmóti 2017 og í 2. sæti á Bikarmóti ÍSS 2017 en einnig var hún í 2. sæti á Íslandsmóti 2017 í junior flokki með 92,17 stig.

Kristín Valdís hefur sýnt og sannað á sínum skautaferli að hún er kappsfull og metnaðarfull íþróttakona sem leggur sig mikið fram í sinni íþrótt og er öðrum iðkendum góð fyrirmynd bæði í framkomu og viðhorfi til íþróttarinnar. Hún er því vel að þessum titli komin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert