Hollendingar undirstrika yfirburðina

Jorien Ter Mors á fleygiferð á svellinu í dag þar …
Jorien Ter Mors á fleygiferð á svellinu í dag þar sem hún vann gull. AFP

Hollenskir keppendur halda áfram að undirstrika yfirburði sína í skautahlaupi á Vetrarólympíuleikum og fimmta gullið kom í hús á leikunum í Pyeongchang í 1.000 metra skautahlaupi kvenna í dag.

Það var Jorien Ter Mors sem sigraði á 1:13,56 mínútum og setti jafnframt nýtt ólympíumet. Japönsku keppendurnir Nao Kodaira og Miho Takagi fengu silfur og brons, 26/100 og 42/100 úr sekúndu á eftir sigurvegaranum.

Þetta var fimmta keppnin í skautahlaupi það sem af er í Pyeongchang og hafa Hollendingar unnið gull í öllum greinum. Holland vann þrefalt í 3.000 metra hlaupi kvenna á laugardag, gull í 5.000 metra hlaupi karla á sunnudag, gull og brons í 1.500 metra hlaupi kvenna á mánudag og gull og silfur í 1.500 metra hlaupi karla í gær.

Aldrei áður í sögu Vetrarólympíuleika hefur ein þjóð unnið fimm fyrstu keppnirnar í skautahlaupi, en þetta er jafnframt sjöundi sigurinn í röð ef taldar eru með síðustu tvær greinarnar á ÓL í Sotsjí árið 2014. Sjö sigrar í röð jafnaði met Noregs frá árunum 1936-1948.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert