Snorri frábær í lokagreininni á HM

Snorri Einarsson glaðbeittur í Seefeld.
Snorri Einarsson glaðbeittur í Seefeld. Ljósmynd/@skidasambandIslands

Skíðagöngukappinn Snorri Einarsson náði afar góðum árangri í lokagrein heimsmeistaramótsins í Seefeld í Austurríki í dag.

Snorri endaði í 18. sæti í 50 kílómetra göngu með frjálsri aðferð. Hann fór gönguna á 1:51;14,9 klukkustund.

Norðmaðurinn Hans Christer Holund skar sig úr og varð heimsmeistari af öryggi, á 1:49;59,3 klukkustund, eða rúmum 75 sekúndum á undan Snorra. Snorri var aðeins tæpum 18 sekúndum á eftir Sjur Røthe frá Noregi sem fékk bronsverðlaun, en Rússinn Alexander Bolshunov fékk silfurverðlaunin.

Norðmenn unnu þar með 13 af 22 greinum á HM í norrænum greinum í Seefeld en þeir urðu langsigursælastir og fengu alls 25 medalíur. Þjóðverjar fögnuðu 6 heimsmeistaratitlum, Svíar tveimur og Pólverjar einum, en aðrar þjóðir fengu ekki gull á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert