Clarke ætlar sér í fremstu röð

Darren Clarke.
Darren Clarke. Reuters

Norður-Írinn Darren Clarke segir að hann ætli sér stóra hluti á Evrópumótaröðinni í golfi á þessu ári en hann mætir ferskur til leiks á nýju ári. Clarke hefur á undanförnum mánuðum átt erfitt uppdráttar á atvinnumótum en hann hefur 10 sinnum sigrað á atvinnumótum en síðasti sigur hans var í ágúst árið 2003.

„Það er langt síðan ég hef verið eins spenntur fyrir því að ferðast og keppa. Ég legg einnig harðar að mér við æfingar en áður og úti á vellinum get ég brosað á ný. Markmiðið hjá mér er að bæta þann árangur sem ég hef nú þegar náð. Ég væri ekki að æfa svona mikið ef ég hefði ekki trú á því að ég gæti bætt mig,“  sagði Clarke við írska fjölmiðla í gær en hann endaði í 3. sæti á Joburg meistaramótinu í Suður-Afríku s.l. sunnudag.

Í ágúst 2006 á s.l. lést eiginkona hans, Heather, eftir langa baráttu við krabbamein og segir Clarke að þrátt fyrir að hann hafi æft mikið og lagt sig fram eftir fráfall hennar hafi hlutirnir ekki gengið upp. „Ég var ekki með hugann við efnið,“  sagði Clarke en hann var í 24. sæti heimslistans í september 2006 en hann hefur fallið alla leið niður í 204. sæti frá þeim tíma.

Á fimmtudaginn hefst mót í Abu Dhabi þar sem að Clarke verður á meðal keppenda en flestir af sterkustu kylfingum Evrópu taka þátt á því móti. Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG er ekki með keppnisrétt á þessu móti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert