Kaymer með stáltaugar

Martin Kaymer frá Þýskalandi.
Martin Kaymer frá Þýskalandi. AP

Þjóðverjinn Martin Kaymer er ekki að fara á taugum á Abu Dhabi meistaramótinu í golfi á Evrópumótaröðinni. Hann var efstur eftir fyrsta keppnisdaginn í gær þar sem hann lék á 66 höggum eða 6 höggum undir pari. Kaymer, sem var nýliði ársins 2007 á Evrópumótaröðinni, gerði enn betur í morgun þegar hann lék á 7 höggum undir pari eða 65 höggum.

Hann er því samtals á 13 höggum undir pari en margir kylfingar eiga eftir að ljúka keppni í dag.

Kaymer hefur sigrað á tveimur mótum á Áskorendamótaröð Evrópu en hann hefur ekki fagnað sigri á Evrópumótaröðinni. Í júní á síðasta ári lék Kaymer á 59 höggum eða 13 höggum undir pari á EDF mótaröðinni í Þýskalandi.

Adam Scott fra Ástralíu hefur leikið 36 holur á Abu Dhabi meistaramótinu og er hann 11 höggum á eftir Kaymer eftir að hafa leikið á 74 höggum í dag. Luke Donald frá Englandi er á pari vallar samtals ásamt Skotanum Colin Montgomerie.

Paul Casey frá Englandi hefur titil að verja á þessu mót en hann er þessa stundina í 96. sæti og þarf að hafa mikið fyrir því að komast í gegnum niðurskurðinn síðar í dag.  

Staðan á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert