Axel og Berglind efst í Eyjum

Axel Bóasson.
Axel Bóasson.

Axel Bóasson úr GK og Berglind Björnsdóttir úr GR eru í efstu sætum í karla- og kvennaflokki eftir tvo hringi af þremur á stigamótinu í golfi sem nú stendur yfir í Vestmannaeyjum en það er annað mótið í Eimskipsmótaröðinni í sumar.

Keppni seinkaði í morgun vegna hvassviðris og þessvegna lauk öðrum hringnum ekki fyrr en seint í kvöld.

Axel lék fyrri hringinn í dag á 72 höggum, eða 2 yfir pari, en þann síðari á 66 höggum, eða 4 undir pari, og því samtals á 138 höggum. Vel gert hjá þessum unga Hafnfirðingi og núverandi Íslandsmeistara í höggleik. Annar er Arnór Ingi Finnbjörnsson úr GR á pari, 140 höggum, og jafnir í þriðja til fjórða sæti eru þeir Haraldur Franklín Magnús úr GR og Þórður Rafn Gissurarson úr GR en þeir eru báðir á 143 höggum, eða þremur yfir pari.

Berglind hefur leikið 149 höggum, eða 9 yfir pari. Hún lék fyrri hringinn á 78, eða 8 yfir pari, og þann seinni á 71, eða 1 yfir pari.

Í öðru sæti er Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK á 150 höggum, eða 10 höggum yfir pari. Jafnar í þriðja sæti eru Signý Arnórsdóttir úr GK og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR en þær eru á 153 höggum, eða 13 yfir pari vallarins.

Þriðji og síðasti hringurinn er leikinn á morgun og byrjað verður að ræsa út klukkan 7.30 í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert