Veltir Jordan Spieth sjálfum Tiger Woods úr sessi?

Jordan Spieth á 12. holunni á Augusta-vellinum í kvöld.
Jordan Spieth á 12. holunni á Augusta-vellinum í kvöld. AFP

Jordan Spieth, tvítugur Bandaríkjamaður, virðist ætla að gera atlögu að því að velta Tiger Woods úr sessi sem yngsti sigurvegarinn á Masters-mótinu í golfi frá upphafi.

Spieth lauk í kvöld þriðja hringnum á Augusta-vellinum á tveimur höggum undir pari og hefur verið stöðugastur allra, leikið hringina á 71, 70 og 70 höggum, og er því á 5 höggum undir pari. Það á hinsvegar eftir að reyna heldur betur á hann á lokahringnum á morgun.

Tiger Woods vann mótið fyrst þegar hann var 21 árs og þriggja mánaða gamall en Spieth verður ekki 21 árs fyrr en í júlí. Þetta er í fyrsta sinn sem Spieth keppir á Masters og aðeins hans þriðja risamót á ferlinum.

Spieth og Bubba Watson eru nú jafnir og efstir eftir þrjá hringi en Watson hefur verið öllu sveiflukenndari í sínum leik. Hann lék á 74 höggum í dag, tveimur yfir pari, og hefur því verið á 69, 68 og 74 höggum á hringjunum þremur.

Spennan er gífurleg því aðeins fjögur högg skilja að þrettán efstu menn, ekki síst þar sem seinni níu holurnar á Augusta-vellinum bjóða oft uppá miklar sveiflur.

Matt Kuchar frá Bandaríkjunum og Jonas Blixt frá Svíþjóð koma næstir á 4 höggum undir pari.

Spánverjinn Miguel Ángel Jiménez jafnaði met á Masters í dag þegar hann lék hringinn á 66 höggum, sex undir pari vallarins. Hann er sá þriðji í sögu keppninnar sem leikur fimmtugur á 66 höggum. Á undan honum léku þann leik þeir Ben Hogan árið 1967 og Fred Couples árið 2010. Þetta er í fimmtánda sinn sem Jiménez tekur þátt í Masters.

Bandaríkjamaðurinn Rickie Fowler lék líka mjög vel í dag, á 5 höggum undir pari, og er á 213 höggum eins og Jiménez.

Þeir Jiménez, Fowler, Kuchar og Blixt eru allir á höttunum á eftir sínum fyrsta sigri á risamóti.

Staða efstu manna:

211 Jordan Spieth, Bandaríkjunum
211 Bubba Watson, Bandaríkjunum
212 Matt Kuchar, Bandaríkjunum
212 Jonas Blixt, Svíþjóð
213 Manuel Ángel Jiménez, Spáni
213 Rickie Fowler, Bandaríkjunum
214 Lee Westwood, Englandi
214 Jim Furyk, Bandaríkjunum
214 Thomas Björn, Danmörku
215 John Senden, Ástralíu
215 Justin Rose, Englandi
215 Kevin Stadler, Bandaríkjunum
215 Fred Couples, Bandaríkjunum

Rory McIlroy frá Norður-Írlandi, sem rétt slapp í gegnum niðurskurðinn í gær, náði að klífa listann dálítið í dag. Hann lék á einu höggi undir pari og er nú á 219 höggum, þremur yfir pari, í 24.-28. sæti.

Bubba Watson undirbýr pútt á 13. holunni í kvöld.
Bubba Watson undirbýr pútt á 13. holunni í kvöld. AFP
Miguel Ángel Jiménez, fimmtugur en í toppbaráttu og jafnaði met …
Miguel Ángel Jiménez, fimmtugur en í toppbaráttu og jafnaði met "gamlingja" á mótinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert