Masters: Annar sigur Watsons á þremur árum

Bubba Watson sigraði á Masters-mótinu í golfi, fyrsta risamóti ársins, á Augusta-National-vellinum í Georgíuríki í Bandaríkjunum í kvöld. Hans annar sigur á mótinu á þremur árum en hann sigraði einnig 2012 og á því tvo græna jakka eftir kvöldið.

Eins og oft áður reyndist Augusta-völlurinn mönnum erfiður og einungis sjö kylfingar léku undir pari samtals. Watson lék mjög vel á lokahringnum og lék í kvöld á þremur undir pari og var á átta undir samtals. Hann sigraði með þriggja högga mun. 

Bandaríkjamaðurinn Watson klæddi Ástralann Adam Scott í græna jakann í fyrra og nú snúast hlutverkin við. Tveir reynslulitlir kylfingar stóðu sig virkilega vel og urðu í 2. - 3. sæti. Hinn tvítugi Jordan Spieth frá Bandaríkjunum, og Svíinn Jonas Blixt, sem báðir luku leik á fimm undir pari samtals. Spánverjinn litríki Miguel Angel Jimenez náði fjórða sæti á samtals fjórum undir pari. 

Fylgst var með gangi mála á lokahringnum hér á mbl.is.:

22:51: Bubba Watson tryggir sér sinn annan sigur á Masters með pari á 18. holu. Sigrar með þriggja högga mun. 

22:45: Kuchar fékk skolla 18. holu og gaf mjög eftir á seinni níu. Hann endar á -2 eins og Rickie Fowler. Blixt fékk gott par og lýkur leik á -5. Hann og Spieth eru jafnir sem stendur. Allt skiptir þetta máli því margt er undir í svona móti: Mikið verðlaunafé, staða á heimslista, staða á Ryder-listanum og staða á mótaröðinni. 

22:38: Watson og Spieth fengu par á 17. holu. Enn þriggja högga forskot en litlu munaði að Spieth vippaði ofan í fyrir fugli. Blixt fékk einnig par á 17. holuna. Eftirleikurinn verður auðveldur fyrir Watson. 

22:32: Hinn fimmtugi Spánverji, Miguel Angel Jimenez, lauk leik á samtals fjórum undir pari. Hann er í fjórða sæti sem stendur. Ekki slæmt fyrir mann á hans aldri og gleður sjálfsagt marga. Hefur aldrei sigrað á risamóti en þessi spilamennska vekur sjálfsagt vonir um að hann blandi sér í baráttuna á Opna breska í sumar. 

22:23: Par hjá Watson og Spieth á 16. holu og þriggja högga forskot þegar þrjár holur eru eftir. Áttu báðir ágæta möguleika á fugli en púttin vildu ekki í. 

22:16: Par hjá Watson og Spieth og þriggja högga forskot þegar þrjár holur eru eftir. Spieth missti af ágætu tækifæri til að ná í fugl. Watson spilaði holuna einkennilega. Líklega er ekkert til hjá honum sem heitir varkárni. Hann reyndi við flötina í öðru höggi þrátt fyrir að vera á bak við tré og með þriggja högga forskot. Hann sló yfir flötina, vippið var stutt í kjölfarið en tvípútt tryggði parið. 

22:12: Blixt og Kuchar fengu báðir par á hinni fallegu 16. holu. Áttu báðir möguleika á fugli en tókst ekki. 

22:03: Blixt fékk einungis par á 15. holu og pressan á Watson fer minnkandi. Upphafshögg hans og Spieth á 15. holu eru þó bæði á bak við tré. Spurning hvort þeir taki áhættu og reyni við flötina í öðru höggi. Engin ástæða fyrir Watson að gera það í þessari stöðu. 

21:57: Watson og Spieth fengu báðir par á 14. holu. Watson getur svo gott sem innsiglað sigurinn með fugli á 15. holu sem er par 5.

21:54: Blixt og Kuchar fengu báðir par 14. holu og eiga ekki möguleika á erni á 15. holu nema með því að vippa í. Þurfa frábært vipp og gott pútt til að ná fugli. Blixt verður að ná einhverju út úr 15. holunni eins og Bubba Watson er að spila. 

21:45: Fugl hjá Watson. Bubba Watson fékk léttan fugl á 13. holu en Spieth fékk par. Watson sýndi hvað hann getur á 13. holu og er þá með þriggja högga forskot á Spieth og Blixt þegar hann á fimm holur eftir. 

21:32: Váá. Sá ekki betur en Bubba Watson hafi stytt sér leið í upphafshögginu á 13. braut. Hann á einungis stutt annað högg eftir inn á flöt á þessa par 5 holu. Bullandi séns á fugli. Ég hef bara ekki séð neinn á þessum stað eftir upphafshöggið á 13. braut. 

21:31: Fugl hjá Blixt. Svíinn fékk góðan fugl á 13. holu eins og hann þurfti. Ef hann nær öðrum á 15. holu þá er hann með í baráttunni. 

21:28: Spieth setti niður fremur langt pútt fyrir skolla. Fer með ágæta tilfinningu af 12. flöt þrátt fyrir að hafa sett bolta í vatnið. Gæti reynst mikilvægt. Watson fékk gott par án þess að hitta flötina. 

21:23: Augusta-völlurinn var að bjóða Jordan Spieth velkominn á sitt fyrsta Masters-mót. Vatnið fyrir framan flötina á hinni erfiðu, en gullfallegu, par 3 12. holu hirti boltann hans. Gott ef hann fær bara skolla á 12. holu en meiri líkur á skramba.

21:18: Síðasti ráshópur búinn með 11 holur og staðan er óbreytt á toppnum. Seinni níu holurnar á Augusta bjóða upp á miklar sveiflur. Framundan eru tvær par 5 holur, 13. og 15., sem báðar gefa færi á erni fyrir þá bestu í heiminum. Augusta er einnig fljótur að refsa ef menn taka áhættu en slá ekki fullkomin högg. 

21:13: Það segir nokkuð um taugaveiklunina á lokadegi á Masters að aðeins tveir kylfingarnir af þeim efstu eru undir pari í dag þegar komið er fram á seinni níu holurnar. Samt eru aðstæður til að skora ágætar á Augusta í dag. Flatirnar eru aðeins mýkri en oft áður á lokadegi Masters og vindurinn er ekki mikill. 

21:10: Kuchar fékk mikilvægan fugl á 11. holu. Ekki auðveld hola til að fá fugl. Kuchar á ennþá möguleika. 

21:07: Watson tapar höggi. Bubba Watson fékk skolla á 10. holu. Forskotið er eitt högg. Blixt, Kuchar og Björn eiga einnþá möguleika ef þeir komast á góðan skrið á seinni níu. 

21:06: Rickie Fowler hefur byrjað illa á seinni níu og tapað tveimur höggum. Hans möguleikar úr sögunni. 

21:03: Gaman að segja frá því að gamla brýnið Bernhard Langer er einn þeirra sem eru með forystu í klúbbhúsinu. Skilaði sér inn á pari samtals eins og Jimmy Walker og Rory McIlroy. Parið er skorið sem þarf að toppa sem stendur. 

20:53: Augusta National virðist henta þeim sem slá með kylfum fyrir örvhenta. Phil Mickelson hefur sigrað þrisvar, Bubba Watson vann 2012 og er nú í dauðafæri og Mike Weir vann 2003. Hans langbesti árangur á ferlinum. 

20:45: Fugl hjá Watson og skolli hjá Spieth: Bubba Watson tekur forystuna með fugli á 9. holu og hefur þá fengið tvo fugla í röð. Spieth klikkaði á stuttu pútti. Watson hefur unnið af honum fjögur högg á liðlega 20 mínútum. Watson með tveggja högga forskot. 

20:38: Í næstsíðasta ráshópnum tapaði Matt Kuchar höggi á 9. holu og er -3 samtals. Blixt fékk hins vegar par og virðist líklegur til að geta sett þrýsting á Watson og Spieth. 

20:32: Tveggja högga sveifla. Bubba Watson og Jordan Spieth eru jafnir á -7. Spieth sýndi fyrstu merki taugaspennu á 8. holu og fékk skolla á meðan Watson fékk léttan fugl enda er um par 5 holu að ræða. Slæm mistök hjá Spieth og nú reynir á andlegu hliðina. 

20:23: Svíinn Jonas Blixt fékk skolla á 7. holu en náði fuglu á 8. holu. Er því á -4 en hann paraði fyrstu sex holurnar. Höndlar aðstæður vel miðað við litla reynslu. 

20:21: Fred Couples slær ekki met Jack Nicklaus í dag en Nicklaus er elstur til að vinna risamót en hann vann Masters 46 ára árið 1986. Couples fékk skolla á 10. holu og er búinn að senda boltann í vatnið á 11. holu. 

20:13: Fugl hjá Spieth. Sá tvítugi er í banastuði á sínu fyrsta Masters-móti. Fékk fugl á 7. holu og hefur fengið fugla á holum sem ekki eru mestu fuglaholur vallarins. Hann er heitur á flötunum og það er góðs viti fyrir hann. Hefur tveggja högga forskot á Watson og fjögurra högga forskot á Kuchar og Blixt. 

20:08: Thomas Björn tapaði höggi á 9. og er samtals á -2. Fred Couples er einnig búinn með fyrri níu holurnar og er á -3. 

20:05: Rory McIlroy er kominn á parið samtals eftir að hafa fengið fimm fugla í dag á fyrstu fjórtán holunum. Of seint í rassinn gripið hjá honum. 

19:59: Fugl hjá Spieth og Watson. Jordan Spieth virðist vera alger nagli. Eftir skolla á 5. braut þá parkeraði hann upphafshöggi sínu upp við holuna á 6. braut sem er par 3. Fékk auðveldan fugl. Bubba Watson er að hitna og fékk einnig fugl. Ætlar ekki að láta stinga sig af.

19:57: Fred Couples, Thomas Björn og Rickie Fowler halda sínu striki á -3. Hafa fengið ófá pörin. 

19:49: Jordan Spieth fékk skolla á 5. holu og forystan er því aðeins eitt högg. 

19:39: Vafalaust hafa margir spekingar átt von á því að sjá Spieth koðna niður á lokadeginum enda ekki auðvelt að höndla álagið sem fylgir því að vera í síðasta ráshópi á Masters. Spieth virkar ótrúlega yfirvegaður og er sterkur á flötunum sem er aðalmálið á Augusta. Hann hefur ekki slegið neitt sérstaklega vel af teig en Tiger Woods vann Masters með tólf högga mun árið 1997 þrátt fyrir að vera villtur í upphafshöggunum. Þá setti hann met sem Spieth getur bætt í dag og orðið yngsti sigurvegarinn frá upphafi. 

19:37: Tveir af þeim gömlu, Furyk og Jimenez, hafa tapað höggi og eru á -1.

19:35: Fugl hjá Spieth. Lokahringurinn er að þróast frábærlega fyrir Spieth. Hann setti niður glompuhögg á 4. holu sem er par 3 og gefur fá færi á fuglum. Er þá á -7. Bubba Watson fékk reyndar einnig fugl og er því aftur á -5. 

19:32: Hrein unun að fylgjast með Fred Couples. 54 ára gamall og bakveikur en hefur fengið tvo fugla og fimm pör á fyrstu sjö holunum í dag. Leikur iðulega eins og engill á Augusta en hann er að leika á Masters í þrítugasta skipti. Sigraði á mótinu árið 1991. 

19:28: Sveiflurnar halda áfram. Spieth er með tveggja högga forskot. Kuchar fékk skramba á 4. holu og Watson fékk skolla á 3. holu. Reynslulitlu mennirnir Spieth og Blixt virðast öruggari en Watson og Kuchar. 

19:13: Nei nei hættu nú. Matt Kuchar er einnig kominn á -6. Hann fékk ótrúlegan fugl á 3. holu. Var fyrir utan flötina en kom boltanum í holuna. 

19:11: Hinn tvítugi Jordan Spieth hefur tekið forystuna. Hann fékk fugl á 2. holu sem er par 5. Virkar mjög öruggur en spennan ætti að vera yfirþyrmandi fyrir hann. 

Kl 19:09: Hörmungarsaga Lee Westwood á risamótunum heldur áfram. Hann fékk skramba á 4. holu. Hann og John Senden frá Ástralíu eru báðir á +1. Westwood hefur tapað þremur höggum og Senden tveimur. 

Kl 19:06: Matt Kuchar fékk fugl á 2. holu og er því jafn efstu mönnum á -5. Kuchar hefur síðustu árin verið áberandi á PGA-mótaröðinni en hefur ekki sigrað á risamóti enn sem komið er. Hann er líklegur til afreka í dag. Svíinn lítt kunni Jonas Blixt sem leikur með Kuchar hefur parað fyrstu tvær holurnar og er höggi á eftir.

Kl 18:59: Englendingurinn Lee Westwood hefur aldrei sigrað á risamóti þrátt fyrir að hafa verið í fremstu röð í mörg ár. Hann fékk skolla á 3. holu og er samtals -1.

Kl 18:55: Spánverjinn vinsæli Miguel Angel Jimenez byrjaði á skolla og fugli og er því á -3 eins og hann byrjaði daginn. Jimenez hefur aldrei sigrað á risamóti en hefur unnið mikinn fjölda móta á Evrópumótaröðinni. Rickie Fowler fékk skolla á 2. braut sem er par 5 og eyðilagði þar með draumabyrjun sína ef svo má segja. Fowler þrípúttaði af stuttu færi. Flatirnar á Augusta eru ekkert grín. 

Kl 18:53: Efstu menn Spieth og Watson voru að ljúka leik á fyrstu holu. Báðir á pari. Nú eru allir komnir af stað á lokahringnum. Ekki var að sjá að hinn ungi Spieth væri taugaspenntur en hann á möguleika á því að vera yngsti sigurvegarinn á Masters frá upphafi. 

Kl 18:48: Daninn Thomas Björn fékk fugl á 3. holu og er þá á -3. Enginn Norðurlandabúi hefur sigrað á risamóti hjá körlunum. 

Kl 18:42: Gömlu kempurnar Fred Couples og Jim Furyk hafa fengið fugla á fyrstu tveimur holunum í dag og eru því báðir á samtals -3. Couples á fyrstu tveimur og Furyk á 2. holu. Frábær byrjun sem gerir það að verkum að ekki er hægt að útiloka þeirra möguleika. Couples hefur sigrað á Masters fyrir rúmum tveimur áratugum en ekki Furyk en Furyk hefur þó unnið risamót en hann sigraði á Opna bandaríska fyrir um áratug síðan.

Kl 18:40: Bandaríkjamaðurinn ungi Ricke Fowler byrjaði á fugli á fyrstu holu og er þá á -4 höggi á eftir efstu mönnum sem eru að gera sig klára að hefja leik. 

 Kl 18:30: Síðasti ráshópurinn með Bandaríkjamennina Jordan Spieth og Bubba Watson innanborðs á að hefja leik eftir um það bil tíu mínútur ef dagskráin gengur eftir.  Gríðarlega spenna er í loftinu þar sem mikill fjöldi kylfinga á raunhæfa möguleika á sigri fyrir lokahringinn. Útlit fyrir áhugaverðan dag á Augusta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert