Birgir Leifur hélt haus og uppskar sigur

Birgir Leifur Hafþórsson sigraði á Hamarsvelli.
Birgir Leifur Hafþórsson sigraði á Hamarsvelli. Eva Björk Ægisdóttir

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, bar sigur úr býtum á Símamótinu sem fram fór á Hamarsvelli í Borgarnesi um helgina, en mótið er þriðja stigamót sumarsins á Eimskipsmótaröðinni. Þetta var fyrsta mót hans á mótaröðinni í sumar.

Birgir Leifur var einu höggi á eftir Kristjáni Þór Einarssyni, sem var með forystuna bæði eftir fyrsta og annan hring. Hann missteig sig hins vegar á lokahringnum í dag, lék á fimm höggum yfir pari á meðan Birgir Leifur var stöðugur og lék á 71 höggi, eða pari. Hann var samtals á fimm höggum undir pari, fjórum höggum á undan Kristjáni sem varð annar.

Aron Snær Júlíusson, GKG, var þriðji eins og eftir fyrstu tvo hringina. Hann lék sömuleiðis á fimm höggum yfir pari í dag og á þremur yfir pari samtals.

Ragnar Már Garðarsson, GKG, sem unnið hafði fyrstu tvö mót sumarsins, náði sér ekki á strik um helgina og var samtals á sextán höggum yfir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert