Pabbi McIlroys gæti unnið 10 ára veðmál

Feðgarnir Gerry og Rory McIlroy.
Feðgarnir Gerry og Rory McIlroy. AFP

Fyrir tíu árum lögðu Gerry McIlroy, faðir kylfingsins Rorys McIlroys frá Norður-Írlandi, og þrír vinir hans undir 400 pund að Rory, sem þá var aðeins 15 ára, ætti eftir að vinna opna breska meistaramótið í golfi áður en hann yrði 26 ára. Líkurnar sem gefnar voru upp þegar pabbinn og vinir hans lögðu inn veðmálið var 500-1.

Rory McIlroy er nú í forystu þegar þremur hringjum af fjórum er lokið á opna breska meistaramótinu á Holylake í Liverpool og hefur sex högga forystu á Bandaríkjamanninn Ricky Fowler sem er annar fyrir lokahringinn. Líkurnar verða því að teljast nokkuð góðar á að McIlroy vinni opna breska meistaramótið í dag í fyrsta sinn.

Standi McIlroy uppi sem sigurvegari í dag ættu Gerry McIlroy og vinir hans þrír að vinna sér inn 200 þúsund pund eða sem nemur rúmum 39 milljónum íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert