Birgir Leifur Íslandsmeistari í sjötta sinn

Birgir Leifur Hafþórsson lyftir Íslandsbikarnum í Leirdal í dag.
Birgir Leifur Hafþórsson lyftir Íslandsbikarnum í Leirdal í dag. mbl.is/Eva Björk

Birgir Leifur Hafþórsson er Íslandsmeistari í golfi í sjötta skipti og í annað sinn á jafnmörgum árum. Birgir Leifur jafnar þar með árangur Björgvins Þorsteinssonar og Úlfars Jónssonar sem hafa unnið titilinn sex sinnum hvor.

Samtals var Birgir á 10 undir pari en næstir á eftir honum voru Þórður Rafn Gissurarson og Ólafur Björn Loftsson á þremur undir pari. Þeir munu leika til þrautar um 2. sætið.

Birgir Leifur sem var á tólf höggum undir pari í dag hafði sjö högga forskot fyrir hringinn á Axel Bóasson sem var á 7 höggum undir pari en það var ekki margt sem benti til þess að Birgir myndi missa forskot sitt niður.

Þó var spilamennska Birgis ekki jafn góð í dag og fyrstu þrjá dagana. Eftir fyrstu 10 holur dagsins var hann á fjórum höggum yfir pari. Það sakaði hins vegar ekki þar sem Axel Bóasson og Þórður Rafn Gissurarson náðu sér ekki heldur á strik. Axel fékk tvöfaldan skolla á 8. og 9. holu og skolla á þeirri 10. Þórður Rafn var á pari þar til hann fékk tvöfaldan skolla á 9. holu.

Birgir Leifur lék 9. holuna á pari og fór svo langt með að tryggja sér sigurinn með þremur fuglum í röð á 12., 13. og 14. holu. Eftir það gerði hann engin stórvægileg mistök en minnst fór forskot Birgis Leifs í fögur högg í dag.

Birgir Leifur Hafþórsson vann sinn sjötta Íslandsmeistaratitil í dag.
Birgir Leifur Hafþórsson vann sinn sjötta Íslandsmeistaratitil í dag. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert