Horschel nánast hættur en vann 1,2 milljarða

„Ég efast um að lífið geti orðið eitthvað betra,“ sagði bandaríski kylfingurinn Billy Horschel í gær eftir að hann vann mesta verðlaunafé sem veitt er ár hvert í golfheiminum eða 10 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði 1,2 milljarða króna, með sigri í FedEx-bikarnum.

FedEx-bikarinn samanstendur af fjórum síðustu mótum PGA-mótaraðarinnar og lauk með Tour Championship í gær þar sem 29 stigahæstu kylfingar mótaraðarinnar mættust.

Nokkrir kylfingar áttu möguleika á að tryggja sér FedEx-bikarinn með sigri í lokamótinu og þar á meðal var Horschel. Hann hafði betur í baráttu við menn eins og Rory McIlroy og Jim Furyk, og endaði að lokum með þriggja högga forskot.

Fyrir FedEx-bikarinn var staðan skelfileg hjá Horschel en hann var í 69. sæti áður en úrslitamótin hófust og féll niður í 82. sæti eftir fyrsta mótið. Hann náði hins vegar 2. sæti í Boston, vann mótið í Denver og svo aftur í Atlanta. Í heildina hefur Horschel því unnið sér inn 13,5 milljónir dala á síðustu þremur vikum, rúmlega 1,6 milljarða króna, og það merkilega er að hann var nánast hættur að hugsa um yfirstandandi keppnistímabil.

„Ég man að ég var á leiðinni heim og talaði við konuna mína sem sagði að ég væri væntanlega bara að bíða eftir að tímabilinu lyki, og ég gæti byrjað upp á nýtt. Þannig var það eiginlega. Ég vissi samt að ég væri upp á mitt besta og að ég þyrfti bara að hætta að gera sjálfum mér svona erfitt fyrir. Ég þurfti að láta ljós mitt skína,“ sagði Horschel.

Horschel verður hins vegar ekki með Bandaríkjunum í Ryder-bikarnum enda var valið í liðið áður en hann gerði sér lítið fyrir og vann tvö síðustu mótin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert