Skrif á samfélagsmiðla urðu forseta PGA að falli

Ted Bishop í félagsskap Rorys McIlroy.
Ted Bishop í félagsskap Rorys McIlroy. AFP

Forseti bandaríska golfsambandsins PGA, Ted Bishop, er hættur störfum. Brotthvarf hans virðist tengjast ummælum sem hann hafði um enska kylfinginn Ian Poulter á Twitter.

Poulter hefur sent frá sér bók þar sem hann gagnrýnir ensku Nick Faldo í tengslum við Ryder-bikarinn árið 2008. Bandaríkin unnu þá keppni en Faldo var þá fyrirliði Evrópuliðsins.

Bishop brást við gagnrýni Poulters í bókinni með tísti þar sem hann kallaði Poulter „litla stelpu“ og ýjaði að því að afrekaskrá Faldo og Poulters var vart samanburðarhæf en Faldo vann sex risamót á ferlinum en Poulter hefur ekki tekist að vinna risamót. Einnig mun Bishop hafa skrifað á Facebook að Poulter væri „eins og lítil skríkjandi skólastelpa í frímínútum.“ Báðum færslum hefur verið eytt.

PGA tók málið engum vettlingatökum og hefur staðfest að Bishop sé þegar hættur störfum og baðst um leið afsökunar á ummælum Bishop og sagði þau óásættanleg.

Ian Poulter með Ryder-bikarinn
Ian Poulter með Ryder-bikarinn AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert