Birgir Leifur úr leik í Katalóníu

Birgir Leifur Hafþórsson
Birgir Leifur Hafþórsson mbl.is/Styrmir Kári

Birgir Leifur Hafþórsson er úr leik á lokastígi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í golfi á PGA Catalanya á Spáni. Hann lék fjórða hringinn á mótinu í dag á tveimur höggum yfir pari. Þar með er hann á þremur höggum yfir pari eftir hringina fjóra sem ekki mun duga til þess að vera í hópi þeirra sjötíu kylfinga sem halda áfram keppni á morgun og á fimmtudaginn um sætin 25 sem í boði eru inn á Evrópumótaröðina á næsta ári. 

Sem stendur er Birgir Leifur í kringum 100. sætið af 156 keppendum en nokkur hópur á eftir að ljúka leik.  Hann lék fyrstu níu holurnar í dag á tveimur höggum yfir pari en síðari níu á pari. 

Til þess að komast áfram á fimmta og sjötta hring verða kylfingarnir sennilega að leika á pari vallarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert