Bygging íþróttamiðstöðvar GKG hefst í febrúar

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, Guðmundur Oddsson formaður GKG og …
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, Guðmundur Oddsson formaður GKG og Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar.

Golfklúbbur GKG undirritaði í gær samning við sveitarfélögin Garðabæ og Kópavog um byggingu nýrrar íþróttamiðstöðvar GKG. Nýja húsið verður norðan við Vífilsstaði í Garðabæ. Það verður um 1.400 fermetrar að stærð og skiptist í almenna félagsaðstöðu og æfingaaðstöðu. Æfingaaðstaðan verður m.a. búin fullkomnum sveiflugreiningartækjum, golfhermum auk pútt- og vippaðstöðu.

Agnar Már Jónsson, framkvæmdastjóri GKG, sagði löngu orðið tímabært að ráðast í framkvæmdirnar. Hann sagði að golfklúbburinn þjónaði um 1.500 almennum félagsmönnum og auk þess sæktu um 900 börn og unglingar námskeið og reglulegar æfingar hjá félaginu.

GKG hefur verið til húsa í gömlum söluskála sem fluttur var á svæði klúbbsins fyrir 16 árum. Sem kunnugt er nær golfvöllurinn frá Garðabæ og yfir í Kópavog.

Agnar Már sagði að nýja húsið mundi valda byltingu í starfi klúbbsins. Áformað er að hefja framkvæmdir í febrúar næstkomandi og er áætlað að nýja húsið verði vígt í mars á næsta ári. gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert