Sætur og langþráður sigur Harrington

Padraig Harrington með verðlaunagrip sinn.
Padraig Harrington með verðlaunagrip sinn. AFP

Írski kylfingurinn Padraig Harrington vann langþráðan sigur á PGA-mótaröðinni þegar hann fór með sigur af hólmi á Honda Classic-mótinu í dag eftir bráðabana.

Harrington hafði ekki unnið mót á PGA-mótaröðinni síðan árið 2008, þegar hann vann sjálft PGA-meistaramótið, og enn virtist ætla að verða bið á því þegar hann fékk tvöfaldan skolla á 17. holu, á lokahringnum á Palm Beach í Flórída. Harrington tryggði sér hins vegar bráðabana gegn Daniel Berger með því að fá fugl á lokaholunni.

Í bráðabananum fengu báðir par á 18. holu en Harrington hafði svo betur á 17. holu eftir að Berger sló boltann sinn út í vatn.

Með sigrinum tryggði Harrington sér sæti á Masters-mótinu í næsta mánuði og hann fer úr sæti 297 í 82. sæti á heimslistanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert