Einkaflugvél Tigers í Augusta

Tiger Woods.
Tiger Woods. AFP

Sögusagnir um að Tiger Woods muni taka þátt í Masters-mótinu, fyrsta risamóti ársins, halda áfram að stigmagnast. Í gærkvöldi bárust fréttir af því að einkaflugvél Tigers hefði sést á flugvellinum í Augusta í Georgíu þar sem mótið fer jafnan fram. Mótið í ár verður dagana 9. til 12. apríl.

Þetta kemur fram í bæjarblaði Augusta Chronicle sem fullyrti að vél með sömu númerum og einkaþota Tigers hefði sést á flugvellinum. Starfsmenn flugvallarins vildu þó ekki staðfesta neitt en en upplýsingafulltrúi flugvallarins, Lauren Smith sagði þó að „það væri ekki óeðlilegt að leikmenn kæmu viku fyrir mótið,“ en vél Tigers fór þó síðar þann dag.

Fjölmargar heimildir, þá á meðal umboðsmaður Woods Mark Steinberg segja að Woods hafi spilað 18 holur á Augusta vellinum en til þess að átta sig betur á hvort hann sé tilbúinn í mótið.

Woods hefur ekki spilað á PGA-mótaröðinni frá því að hann hætti keppni á Torrey Pines vellinum þann 5. febrúar. Þann 11. febrúar gaf hann út tilkynningu um að hann myndi ekki snúa aftur fyrr en hann væri búinn að laga ýmsa galla á leik hans.

Tiger Woods hefur unnið fjórtán risatitla á ferli sínum, þar á meðal fjórum sinnum á Masters-mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert