Birgir Leifur í 8.-15. sæti í Danmörku

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. mbl.is/Styrmir Kári

Kylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG, lenti í 8.-15. sæti á NorthSide Charity Challenge mótinu, í Nordic League mótaröðinni, sem haldið var á Lyngbygaard golfvellinum nálægt Árósum í Danmörku en mótinu lauk í morgun. Birgir fór hringina þrjá á 68, 75 og 71 höggi, eða á tveimur höggum undir pari samtals.

Birgir Leifur var á þremur höggum undir pari eftir fyrstu 10 holurnar en fékk tvo skolla í röð á 11. og 12. holu en endaði á einu höggi undir pari í dag.

Ólafur Björn Loftsson, einnig úr GKG, komst ekki í gegnum niðurskurðinn og fór sína tvo hringi á átta yfir pari, á 74 og 78 höggum.

Hér má sjá lokastöðu mótsins.

Birgir Leifur er skráður á mót í Áskorendamótaröð Evrópu í Danmörku í maí en er á biðlista eins og er, en hann á takmarkaðan keppnisrétt á mótaröðinni sem hann leggur þó mikla áherslu á.

Um er að ræða annað mótið á tímabilinu hjá Birgi en hann spilaði vel á Bravo Tours Open mótinu í sömu mótaröð í síðustu viku og endaði þar í 5.-9. sæti. Þar spilaði Ólafur Björn einnig vel og endaði í 11.-13. sæti en hann hefur spilað á fjórum mótum á mótaröðinni á þessu tímabili.

Nordic Golf League, eða Ecco mótaröðin eins og hún er stundum kölluð er samvinnuverkefni atvinnumótaraða í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi og er í raun þriðja deild atvinnumótaraða í Evrópu en Áskorendamótaröðin er sú næststerkasta. Fimm stigahæstu keppendurnir í þriðju deildinni fá fullan keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert