„Ég tek þetta allan daginn“

Þórður Rafn Gissurarson með Íslandsmeistarabikarinn.
Þórður Rafn Gissurarson með Íslandsmeistarabikarinn. Eva Björk Ægisdóttir

Þórður Rafn Gissurarson úr Golfklúbbi Reykjavíkur vann Íslandsmótið í höggleik með yfirburðum í dag en lokadagur mótsins fór fram á Akranesi þar sem leikið var á Garðavelli hjá Golfklúbbinum Leyni.

„Það er lítið hægt að setja út á þessa spilamennsku fyrir utan annan hringinn, ég byrja illa þar en náði svo að koma mér til baka,“ sagði Þórður Rafn við mbl.is á Akranesi í dag.

Þórður Rafn lék hringina fjóra samtals á tólf höggum undir pari, fimm betur en Axel Bóasson úr Keili. Fyrir daginn í dag hafði enginn unnið á betra skori en -10 á Íslandsmótinu í höggleik - það gerðu Magnús Guðmundsson árið 1964 og Birgir Leifur Hafþórsson árið 2013 og 2014.

„Það var búið að segja þetta við mig í gær, að það væri 10 undir. Ég pældi ekki mikið í því. Aðal málið var að klára þetta mót, svo getur maður pælt í hinu seinna, hvort sem maður hefði slegið það eða ekki. Það var frábært að ég náði þessu - met eru gerð til þess að vera slegin. Svo býður maður bara spenntur eftir því að einhver eða ég slái þetta met,“ sagði Þórður sem átti ótrúlegt teighögg á 18. holunni í dag við mikinn fögnuðu áhorfenda en kúlan var aðeins örfáa sentímetra frá holunni.

„Ég sá að hann var strik á pinnan en bjóst ekki við því að hann væri svona saumaður við holuna. Miðað við það sem ég heyrði var þetta ansi nálægt því. Það hefði verið ansi gaman að smella honum þarna ofan í en ég tek þetta allan daginn,“ sagði Þórður.

Nánar verður rætt við Þórð í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert