GSÍ bað Björgvin og Kára afsökunar

Björgvin Þorsteinsson hætti eftir sex holur á fyrsta hring.
Björgvin Þorsteinsson hætti eftir sex holur á fyrsta hring.

Golfsamband Íslands gaf frá sér tilkynningu nú rétt í þessu, en sambandið endurskoðar nú reglur um notkun golfbíla.

Mikið hefur verið rætt og ritað um notkun golfbíla á íslensku mótaröðinni, en eins og mbl.is greindi frá á dögunum þá hætti Björgvin Þorsteinsson, sexfaldur Íslandsmeistari í golfi, keppni eftir að mótsstjórn golfsambandsins synjaði honum um að nota golfbíl.

Frétt mbl.is: „Íþróttinni til skammar“

Kári Örn Hinriksson fékk sömu meðferð í júní er beiðni hans um að nota golfbíl á stigamótaröðinni var synjað, en hann glímir einnig við veikindi.

Fréttt mbl.is: Undirritun skjalsins var breytt og Skilmálarnir samþykktir réttilega

Málin hafa vakið mikla reiði meðal almennings, en golfsambandið hefur gefið frá sér yfirlýsingu þar sem keppendur eru beðnir afsökunar á óskýrum reglum sambandsins. Hægt er að lesa tilkynninguna í heild sinni hér fyrir neðan.

Frétt mbl.is: Bandarískt fordæmi á ekki við

Tilkynning golfsambands Íslands:

Í aðdraganda Íslandsmótsins í golfi, sem nýverið fór fram á Akranesi, óskaði Björgvin Þorsteinsson, sexfaldur Íslandsmeistari, eftir heimild mótsstjórnar til að fá að notast við golfbíl í mótinu vegna veikinda. Mótsstjórn synjaði honum um heimildina þar sem notkun golfbíla hefur ekki verið heimiluð í keppni á efsta keppnisstigi hjá golfsambandinu. Sama afstaða var tekin á golfmóti á stigamótaröð golfsambandsins í júní sl. þegar öðrum keppanda, Kára Hinrikssyni, var synjað um heimild til notkunar golfbíls á sömu forsendum.

Í keppnisskilmálum Íslandsmótsins er gert ráð fyrir því að veita megi keppendum heimild til notkunar golfbíla. Undantekningarskilyrðin eru þó ekki tiltekin sérstaklega og því undir mótsstjórn hvers móts komið hvort hún samþykkir beiðnir eða hafnar þeim. Beiðnum kylfinga um notkun golfbíla á efsta keppnisstigi hefur ávallt verið synjað þótt þær hafi stöku sinnum verið samþykktar í öðrum mótum á vegum golfsambandsins.

Þar sem reglur um notkun golfbíla eru ekki skýrari en raun ber vitni telur Golfsamband Íslands rétt að taka þær til endurskoðunar svo koma megi í veg fyrir hugsanlegt ósamræmi við túlkun þeirra. Reglur, bæði fyrir golfmót og almennar reglur golfíþróttarinnar, eiga að vera skýrar og afdráttarlausar enda fela þær í sér leiðbeiningar fyrir mótsstjórnir, keppendur og almenna iðkendur golfíþróttarinnar.

Golfsamband Íslands hefur beðið framangreinda kylfinga afsökunar á þeim afleiðingum sem þessar óskýru reglur höfðu í för með sér.

Reykjavík, 28. júlí 2015.

Haukur Örn Birgisson

Forseti Golfsambands Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert